Karitas Harpa Davíðsdóttir frá Selfossi er ein þeirra átta keppenda sem eftir standa í keppninni The Voice Ísland en undanúrslitaþátturinn er í beinni útsendingu í Sjónvarpi Símans á föstudagskvöld.
Áttatíu keppendur hófu keppnina fyrr í vetur og nú standa átta eftir, tveir frá hverjum þjálfara, en Karitas er í liði Sölku Sólar.
„Ég er eiginlega svolítið spennt fyrir undanúrslitunum, ég var stressuð síðasta föstudag í fyrstu beinu útsendingunni og ég var ekki alltof ánægð með minn flutning. Maður dæmir sig sjálfur harðast. En nú er ég búin að koma einu sinni fram í beinni útsendingu þannig að hrollurinn er farinn og ég hlakka bara til föstudagskvöldsins,“ sagði Karitas í samtali við sunnlenska.is, en hún mun flytja gamalt og hresst lag eftir Ettu James í undanúrslitaþættinum.
„Það er búin að vera mikil reynsla að taka þátt í The Voice Ísland og þvílíkur skóli fyrir mig,“ segir Karitas sem hefur mikla reynslu af söng og hefur komið víða fram á síðustu árum.
„Ég er kannski búin að vera að syngja of lengi inni í mínum þægindaramma en Salka Sól hefur hrist vel upp í mér og ýtt mér í aðrar áttir og kennt mér að fá meira út úr söngnum. Það er alveg yndislegt að vinna með henni, hún er svo mikill náttúrutalent. Það snýst ekki bara um að fá tilsögn í söng eða framkomu heldur leggur hún mikla hugsun í lagavalið og marga aðra hluti. Ég kann virkilega vel að meta stuðninginn sem hún og Arnar aðstoðarþjálfari hennar hafa sýnt mér og það er frábært að hafa þau með sér í þessu.“
Karitas segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi í gegnum keppnina frá ótrúlegasta fólki og hún stefnir á að gera sitt fólk stolt á föstudagskvöld.
„Hvernig sem fer þá er búið að vera alveg geðveikt að taka þátt í þessu. Ég er búin að fá miklu meira út úr þessu heldur en ég bjóst við, bæði hvað varðar sönginn og tengslanetið. Markmiðið hjá mér var að komast í beinu útsendingarnar þannig að ég verð sátt hvernig sem fer. Það væri auðvitað gaman að komast í lokaþáttinn og að sjálfsögðu stefni ég á það,“ sagði Karitas að lokum.
Karitas verður sjötti keppandinn á svið á föstudagskvöldið og er því með símanúmerið 900-1006. Útsendingin hefst klukkan 20:00 og er athygli vakin á því að kosningin hefst um leið og þátturinn, þannig að aðdáendur Karitasar geta strax byrjað að hringja.