Nördadagur á Stofunni

Fjórir nördar sjá um hárið á viðskiptavinum Stofunnar á Selfossi í dag og hefur uppátækið vakið óskipta athygli.

„Það er nördaþema hjá okkur í dag en stefnan er að fyrsta föstudag í hverjum mánuði verði þemadagur hjá okkur hérna á Stofunni,“ sagði Gústaf Lilliendahl, annar eigenda Stofunnar, í samtali við sunnlenska.is. „Þetta er annar þemadagurinn hjá okkur, við byrjuðum á rokkaraþema og núna nördaþema og það verður bara spennandi að sjá hvað okkur dettur í hug næst.“

Á meðan sunnlenska.is staldraði við í dag var ekki laust við að gestir Stofunnar rækju upp stór augu við að sjá útganginn á starfsmönnum Stofunnar. „Já, það er gaman að sjá viðbrögðin hjá fólki. Okkur finnst þetta bara skemmtileg tilbreyting og höfum mjög gaman af þessu. Næsti þemadagur verður síðan kynntur á Facebook síðunni okkar þegar að því kemur,“ sagði Gústaf að lokum.

Fyrri greinSædís Ósk hætt í Vinstri grænum
Næsta greinAlvöru réttaball á Borg