Hljómsveitin Stuðlabandið var að gefa út nýtt lag og myndband. Lagið heitir Sumarsól og er ekta íslenskur sumarsmellur.
Lagið er nú þegar byrjað að hljóma á útvarpsstöðvum landsins og er stefnan sett á að koma myndbandinu í sjónvarp sem fyrst.
Stórleikarinn ungi Jónas Ellertsson frá Hellu fer með leiksigur í myndbandinu og eiga Íslendingar örugglega eftir að sjá meira af honum í framtíðinni.
Það er nóg að gera í spilamennsku hjá Stuðlabandinu þessar vikurnar en hljómsveitin kom fram á Bestu Útihátíðinni á dögunum og verður síðan aðalbandið á Unglingalandsmótinu sem verður haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina.
Stuðlabandið skipa þeir Marinó Lilliendahl, Gísli Guðjónsson, Óskar Kúld Pétursson, Bjarni Rúnarsson, Magnús Kjartan Eyjólfsson og Stefán Ármann Þórðarson.
Myndbandið við nýja lagið má sjá hér að neðan.