Sunnlenska hljómsveitin Kiriyama Family sendi fyrr í vikunni frá sér jólalagið Reykjavík to Rio.
„Þetta jólalag fjallar einfaldlega um það að taka skyndiákvörðun og stinga af á seinustu stundu til Rio de Janeiro og sleppa við allt jólastress og það sem fylgir því hérna heima í kuldanum. Svo endar lagið þegar komið er til Rio, beint í gleðina. Þá breytist lagið og endar á smá Rio djammi,“ segir Bassi Ólafsson, trommuleikari hljómsveitarinnar.
„Við erum byrjaðir að semja nýtt efni fyrir næstu plötu þannig að það var fínt að taka smá útúrdúr og gefa út eitt lítið jólalag í okkar stíl,“ segir Bassi en hljómsveitin hefur átt góðu gengi að fagna síðan hún var stofnuð árið 2010. Til að mynda fór lagið þeirra Weekends í efsta sæti vinsældalista Rásar 2 í sumar.
„Við erum að spila á jólatónleikum á vegum X-ins 977 og þar er hefð að böndin taki jólalag. Svo erum við í Höllinni 19. des og þar er líka verið að biðja böndin um að taka jólalag. Þannig að við höfðum um tvennt að velja, fara að æfa upp cover-jólalag eða klára okkar eigið lag sem við áttum gamalt demó af. Þannig að sjálfsögðu tókum við það bara alla leið og gáfum út okkar eigið jólalag svona upp á gamanið. Svo er bara að sjá með tímanum hvort að með þetta verði jólaclassic,“ segir Bassi hlæjandi að lokum.
Hægt er að hlusta á lagið hér.