Félagarnir Leifur Viðarsson og Már Ingólfur Másson á Selfossi hafa sérstakt áhugamál; spurningakeppnir.
Og það engar venjulegar spurningakeppnir, því þær spurningakeppnir sem þeir félagarnir halda mest uppá eru haldnar á pöbbum. Pub-quiz, er enskættaður spurningaleikur, sem eins og nafnið bendir til, á rætur sínar á þarlendum ölkrám.
Leifur og Már hófu að sjá um slíkar knæpukeppnir fyrir tæpum fimm árum og haldið þær með óreglulegu millibili. „Við erum sennilega búnir að spyrja á fjórða þúsund spurninga,“ segir Leifur. Már hefur eins og sönnum sagnfræðingi haldist vel á gögnunum, hefur að eigin sögn aðeins týnt einu A4 blaði. „Sem ég að einhverjum sökum vistaði ekki,“ segir hann.
Vinsældir keppninnar felast í því að allir, sem á annað borð eru á kránni, geta á einfaldan hátt tekið þátt og reynt með sér. „Þetta er svona eins og unglingavinnan; Það er ekki málið að vinna – heldur bara vera með,“ útskýrir Leifur. Heilt yfir hafa velflestir tíðir gestir á pöbb-quiz kvöldum unnið einhvern tímann – sem sannar að þeirra mati að það geti allir unnið. En það getur borgað sig að þeirra sögn að koma vel undirbúinn.
„Við reynum að hafa þetta nokkuð fjölbreyttar spurningar sem reyna á grunnþekkingu fólk, en þeir hafa vissulega meiri möguleika sem eru vel lesnir, fylgjast með fréttum og hafa áhuga á spurningaspilum,“ segja þeir félagarnir. Og spurningaspil er á leiðinni. „Já, við eigum niðurskrifaðar reglur, fullt af spurningum (og svörum), borðið nokkurnveginn klárt og flokkarnir, þannig að það gæti mögulega komið út einhvern tímann á næsta ári,“ segir Már.
Í gegnum tíðina hafa margir tekið þátt í Pub-quiz keppnum þeirra Leifs og Más. Ætli frægustu keppendurnir sem hafa mætt séu ekki Felix Bergs, Björgvin Gé, Sverrir Stormsker og Tommi Þórodds, svo einhverjir séu nefndir,“ segja þeir.
Næsta keppni er haldin á Pizza Islandia á Selfossi í kvöld, föstudagskvöld kl. 21:30, og þá verður jólaþema yfir keppninni. Þeir Már og Leifur segja einfalt að undirbúa sig undir það: „Best er að borða piparkökur og fylgjast vel með ferðum jólasveinanna,“ segja þeir í nokkurri kímni.
Már upplýsir að svarið við spurningunni um hvaðan jólasveinarnir koma sé klárlega Ingólfsfjall – það hafi mamma hans kennt honum og önnur svör teljast röng. „Menn hafa reynt að rengja það, til að mynda með tilvitnun í jólasöngva, en það þýðir ekki að þræta við dómarann,“ segir Már.