Föstudaginn 26. júní kl. 20:30 munu söngvarar úr Rangárþingi syngja okkur inn í sumarið ásamt glæsilegri hljómsveit á Midgard Base Camp á Hvolsvelli.
Þar mun hljómsveit, skipuð heimafólki, spila undir en þeir söngvarar sem munu stíga á stokk eru Maríanna Másdóttir, bæjarlistarmaður Rangárþings eystra 2019, Sæbjörg Eva Hlynsdóttir, Aðalheiður Margrét Gunnarsdóttir, Bjarni Guðmundsson, Hlynur Snær Theodórsson, systurnar úr Miðtúni þær Oddný, Margrét og Freyja, Árni Þór Guðjónsson, Herdís Rútsdóttir, Valborg Ólafs og Guðrún María Guðmundsdóttir. Samningaviðræður standa yfir við vertinn Arnar Gauta um að hann muni taka lagið, en samningar hafa ekki náðst að svo stöddu.
Hljómsveitin er ekki af verri endanum en hana skipa Sigurður Einar Guðjónsson á píanó, Árni Þór Guðjónsson á gítar, Óskar Þormarsson á trommur og Sigurgeir Skafti Flosason á bassa.
Miðasala verður við inngang og er magn miða takmarkað – fyrstur kemur fyrstur fær. Miðaverð er aðeins 3.000 krónur. Matargestir fá forgang á miðakaupum.