Rokksveifla í Réttinni

Hljómsveitin Logar frá Vestmannaeyjum spilar í Réttinni í Úthlíð í Biskupstungum í kvöld.

Logar voru stofnaðir árið 1964 og eru enn í fullu fjöri og aldrei rokkaðri sem nú. Hljómsveitin hefur verið í æfingabúðum á Selfossi að undanförnu og rennt í gegnum gömlu góðu rokklögin. Þetta er fyrsta ball hljómsveitarinnar af nokkruð fyrirhuguðum fram til áramóta.

Um árabil kepptu hljómsveitirnar Logar, Mánar og Hljómar um ballgesti á Suðurlandinu og fara margar sögur af þeim frægu böllum. Logar seldu t.d. 1200 miða á eitt sveitaballið í 400 manna hús á Hvoli árið 1970, þar sem fólksfjöldinn streymdi inn um aðaldyr og út um bakdyr og svo hring eftir hring. Stemmningin á sveitaböllum var mikil á þessum árum, enda ekki mikil önnur afþreying í boði þá. Logar eru enn með sama gamla góða lagaprógrammið, sem gefur ekki nýju lögunum neitt eftir.

Í Úthlíð fer fram bændaglíma í golfi í dag og bændur smala heimalönd sín. Heyrst hefur að hópur Eyjamanna ætli að fjölmenna á fastalandið. Það verður því sannkölluð rokksveifla en nánari upplýsingar um ballið eru á www.uthlid.is.

Fyrri greinRéttardagur í Hreppum
Næsta greinMagnús Aron þjálfar Svía