Sálin hans Jóns míns spilar á Inghóls-reunion í Hvítahúsinu á Selfossi þann 14. mars næstkomandi. Að þessu sinni er búist við að viðburðurinn verði enn veglegri en vant er þar sem á þessu ári eru 30 ár frá því Inghóll var opnaður.
Sálin var einmitt síðasta hljómsveitin til að spila fyrir dansi á þessum goðsagnakennda skemmtistað sem var á efri hæðinni á Fossnesti þar sem KFC og Skalli eru nú til húsa.
Aldurstakmark á dansleikinn er með hærra móti, eða 30 ára en engu að síður er búist við margmenni.
Í tilkynningu frá Hvítahúsinu segir að það eitt sé víst að öll trompin verða lögð út til að gera þennan viðburð sem eftirminnilegastan svo það er um að gera að vera tímanlega í að taka daginn frá og missa ekki af þessu einstaka tækifæri til að hitta alla gömlu vinina við þessar einstöku aðstæður, eins og það er orðað.