Laugardagskvöldið 23. janúar næstkomandi fer fram hið árlega Selfossþorrablót í íþróttahúsinu í Vallaskóla en þetta er í 15. skiptið sem blótið er haldið.
Í tilefni þessa merka áfanga verður hvergi til sparað í að gera kvöldið sem glæsilegast.
Miðaverðið á blótið verður á einstöku afmælisverði eða 5.500 kr. og er blótið í umsjá Veisluþjónustu Hvítahússins. Knattspyrnu og fimleikadeildir Ungmennafélags Selfoss aðstoða við framkvæmd blótsins í fjáröflunarskyni.
Fjölbreytt dagskrá verður í boði en meðal atriða verða Gísli „Landi“ Einarsson, hljómsveitin Rófustappa, Elísa Dagmar, fjöldasöngur, hljómsveitin Bjórbandið, leyniatriði og fleira. Selfosssprotinn 2016 verður veittur að venju og Sigurgeir Hilmar mun flytja gestum bæjarbraginn að sinni alkunnu snilld. Veislustjórn verður í höndum rr. Guðbjargar Arnardóttur, sóknarprests á Selfossi.
Húsið opnar kl. 19:00 og hefst borðhald kl. 20:00 en húsið opnar kl 23:00 fyrir almenna ballgesti. Miðasala á blótið og ballið hefst mánudaginn 11. janúar og fer fram í Galleri Ozone Selfossi og lýkur 18. janúar. Allar nánari upplýsingar um blótið má finna á Facebook.