Sextán tíma sölumennska fyrir frímiða

Leiðirnar til þess að ná sér í miða á löngu uppselda Roskilde Festival eru nokkrar og fjöldi fólks velur þá leið að vinna nokkurs konar sjálfboðavinnu til að fá frímiða.

Vignir Egill Vigfússon skrifar frá Hróarskeldu:

Leifur Bjarki Erlendsson, frá Kirkjubæjarklaustri, er einn þeirra sem kaus þá leið og í gær, föstudag, vann hann sextán klukkutíma langa vakt við að selja Burrito og Taco í Barburrito á aðal matarsölusvæði hátíðarinnar.

Sunnlenska náði tali af honum um ellefuleytið í gærkvöldi, þegar hann hafði staðið vaktina í 15 klukkutíma – bara einn eftir. „Þetta er búið að vera partý síðan klukkan átta í morgun,“ sagði Leifur rámri röddu eftir átök dagsins. „Síðan þá erum við búnir að hlusta á frábæra tónlist og erum búnir að vera að djamma hérna í allan dag – samt ekki fullir.“

Spurningin er samt hvað fær mann til að standa sextán tíma vakt við að selja mat inni í skemmu þar sem hitinn fer vel yfir 30 gráður til þess eins að fá miða á Roskilde Festival. „Misskilningur, held ég bara. Ég hélt að þetta yrði gaman,“ sagði Leifur hlægjandi, en bætti svo við.

„Ég er með mjög netta gaura hérna með mér og ég vissi að ég myndi skemmta mér álíka vel, ef ekki betur, í vinnunni og þegar ég var ekki í vinnunni,“ sagði Leifur, en alls voru sex íslenskir strákar að vinna saman og skipti það hann miklu máli.

„Ég myndi allavega ekki nenna að þrífa klósett hérna í fjóra daga fyrir frían miða, án þess að líta niður á það starf,“ sagði Leifur sem var gríðarlega ánægður með daginn. „Ég var hérna síðustu tvo daga en það hefur verið miklu skemmtilegra í dag, en bara á allt annan hátt. Ég missti af tónleikum sem mig langaði að sjá en samt sem áður hefur þetta verið ógeðslega gaman.“

Rámur, þreyttur, stífur og stirður eftir daginn, en gat samt vel hugsað sér að gera þetta aftur á næsta ári. „Ég mun örugglega gera þetta aftur, þetta er það gaman. Mér líður kannski aðeins illa í löppunum, en ég ætla ekki að væla því ég er að fara að dansa fram á nótt,“ sagði Leifur í þann mund sem hann rauk af stað að taka við næstu pöntun – tvær kjúklingaburrito, takk.

Síðasti pistillinn frá Roskilde Festival verður birtur á morgun, en hátíðinni lýkur í kvöld með stórtónleikum Paul McCartney.
Fyrri greinSelfoss áfram í bikarnum eftir vítaspyrnukeppni
Næsta grein„Íbúar búnir að fá sig alveg fullsadda af ástandinu“