„Mér líður bara mjög vel, þetta var rosalega skemmtilegt kvöld. Ég bjóst ekki við að þetta yrði svona gaman og ég er mjög ánægð,“ sagði Ungfrú Suðurland, Eva Dögg Davíðsdóttir, í samtali við sunnlenska.is.
Eva Dögg geislaði á sviðinu og var vel studd af fjölda áhorfenda. Eins og flestar fegurðardrottningar átti hún ekki von á sigri.
„Nei, ég átti ekki von á þessu,“ sagði Eva Dögg brosandi, „ég er bara mjög glöð með þetta og það var skemmtileg stemmning í salnum í kvöld. Ég bjóst við að það yrði erfiðara að standa uppi á sviði fyrir framan allt þetta fólk en það var bara mjög gaman og gott að finna stuðninginn frá mínu fólki.“
Næsta verkefni Evu Daggar er keppnin um Ungfrú Ísland en fimm stúlkur úr Ungfrú Suðurland munu taka þátt í keppninni.
„Mér líst vel á að taka þátt í Ungfrú Ísland. Ég held bara mínu striki en undirbúningurinn fyrir Ungfrú Suðurland var ekkert ýktur. Það voru æfingar hverja helgi en ég hef alltaf verið í íþróttum þannig að ég þurfti ekkert að taka mig á í sambandi við hreyfingu og mataræði,“ sagði fegurðardrottningin að lokum en hún stundar fimleika með fimleikafélaginu Rán í Vestmannaeyjum.