Um verslunarmannahelgina fer fram fjölskyldu- & tónlistarhátíðin „Flúðir um Versló”. Að sögn Bessa Theodórssonar hjá Sonus Viðburðum er dagskráin stórglæsileg að vanda og aftur stefnir í besta veðrið á Flúðum um Verslunarmannahelgina.
„Það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi í dagskránni frá fimmtudegi. Hátíðin er að festa sig í sessi sem einn af föstu punktunum í hátíðarhaldi þessa helgi, í fyrra voru í kringum 12.000 gestir á Flúðum yfir laugardaginn. Flúðir um Versló er eina skipulagða hátíðin á Suðurlandi, allavega á fasta landinu,“ segir Bessi.
Á fimmtudagskvöld verða tónleikar með Todmobile og á föstudag verður uppistand með Pétri Jóhanni og dansleikur með Stuðlabandinu, svo eitthvað sé nefnt.
Meðal annarra dagskrárliða á laugardag og sunnudag má nefna firmatogið, reiptog yfir Litlu-Laxá, skemmtikvöld með Eyþóri Inga, Leikhópinn Lotti, furðubátakeppnina, brennu og brekkusöng með Hreimi og Magna og dansleiki með Skítamóral, Made in Sveitin og Á móti sól.