Sunnlensku hljómsveitirnar Saktmóðigur og Hellvar leiða saman hesta sína á tónleikum í Edrúhöllinni að Efstaleiti 7 í Reykjavík í kvöld.
Tónleikarnir eru númer tvö í tónleikaröðinni “Kaffi, kökur & rokk & ról” en þeir eru haldnir í Vonarhúsi SÁÁ og ekki þarf að taka fram að eina hugvíkkandi efnið sem verður liðið í húsinu er kaffið – og kökurnar! Tónleikahaldarar lofa heimilislegri brjálsemi þar sem drullupönkararnir í Saktmóðugi og Heiða og Elvar í Hellvar stíga á stokk.
Saktmóðigur er ábyggilega ein algerasta pönksveit landsins, sveitamenn af Suðurlandi sem hafa ekki slegið tommu af í tuttugu ár. „Suddapönk-hljómsveitin Saktmóðígur er eins og kleprar í rasshárum alls þess sem er hipp og kúl á Íslandi – að eilífu dæmd til að vera utangarðs og lafandi svitastokkin á jaðrinum,” segir Dr. Gunni m.a. um nýjustu plötu sveitarinnar, sem út kom fyrir stuttu.
Hellvar er skipuð þeim hjónakornum Heiðu, kenndri við Unun og Elvari manni hennar. Önnur plata sveitarinnar, Stop That Noise, kom út fyrir stuttu. Fyrstu lögin af henni, Ding an Sich og I Should Be Cool, hafa notið töluverðra vinsælda á Rás 2 og X-inu 977 og er Hellvar á bullandi siglingu þessa dagana eftir vel heppnaða tónleikaferð til Bandaríkjanna í sumar.
Húsið opnar kl. 20 en tónleikar hefjast kl. 20:30 og lýkur fyrir kl. 22. Það kostar 500 kr. inn.