Hljómsveitin The Assassin of a Beautiful Brunette frá Selfossi var valin hljómsveit fólksins í símakosningu á úrslitakvöldi Músiktilrauna nú í kvöld.
Úrslitakeppnin fór fram í Listasafni Reykjavíkur og þar fór hljómsveitin Of Monsters and Men með sigur af hólmi. The Assassin of a Beautiful Brunette varð í þriðja sæti og að auki var trommuleikari hennar, afmælisbarnið Skúli Gíslason, valinn besti trommari keppninnar.
Hljómsveitina TAOABB skipa Fannar Freyr Magnússon, gítarleikari og söngvari, Alexander Freyr Olgeirsson, gítarleikari og söngvari, Sigurgeir Skafti Flosason, bassaleikari, Daníel Haukur Arnarsson, söngvari, og Skúli Gíslason, trommuleikari. Þeir eru allir um tvítugt og spila tónlist sem þeir lýsa sem tilfinningum og tjáningu.