Nú gengur sá tími í garð þar sem skammdegið er sem svartast og þá er um að gera að finna sér eitthvað sem gleðir, kætir og nærir hug og sál. Kaffihúsið Hendur í Höfn í Þorlákshöfn ætlar að leggja sitt af mörkum með tónleikaröð næstu vikurnar.
Dagný Magnúsdóttir glerlistakona og sælkeri í Hendur í höfn ætlar í samstarfi við Ásu Berglindi Hjálmarsdóttur að leggja sitt af mörkum til þess að næra líkama og sál í skammdeginu á tónleikaröð þar sem öllum er velkomið að koma og njóta tónlistarinnar og allra þeirra dásamlegu kræsinga sem Dagný mun töfra fram.
Þau sem ríða á vaðið eru Rósa Guðrún Sveinsdóttir og Skúli Þórðarson, oftast kallaður Skúli mennski en saman munu þau halda tónleika næsta sunnudag, 27. október kl. 17.00. Þau eru um þessar mundir að undirbúa tónleikaferðalag um Norðurlöndin í nóvember þar sem þau ætla að kynna tónlist sína fyrir Skandinavíubúum. Skúli er að leggja lokahönd á sína fjórðu sólóplötu en Rósa er að vinna að sinni fyrstu. Með þeim spilar Daníel Helgason gítarleikari, en hann og Rósa eru saman í hljómsveitinni Robert the Roommate sem gaf út sína fyrstu sólóplötu fyrr á þessu ári.
Skúli hefur verið iðinn við að koma fram um landið síðustu árin, ýmist einn eða með hljómsveit með sér og hefur meðal annars spilað á tónlistarhátíðum eins og Gærunni, Við djúpið og Aldrei fór ég suður. Skúli er framsækinn metnaðarfullur texta- og lagahöfundur og flytjandi. Kjörorð hans eru frelsi, virðing og góð skemmtun.
Rósa hefur starfað sem tónlistarmaður um árabil og spilað og sungið með hinum ýmsu listamönnum, eins og Páli Óskari, Bubba, Lay Low, Moses Hightower o. fl. Síðustu árin hefur hún verið ein af ritvélunum hans Jónasar Sig, þar sem hún spilar á saxófón, flautu og syngur bakraddir.
Framundan á tónleikaröðinni eru síðan Stofubandið 1. nóvember, Dusty Miller 16. nóvember og þann 7. desember verður notaleg jólastund með skötuhjúunum Unni Birnu og Jóhanni Vigni.
Aðgangseyrir á tónleikana er 1500 kr. og nánari upplýsingar má finna á Facebook síðu Hendur í Höfn.