Undirbúningur fyrir Ungfrú Suðurland stendur nú sem hæst og eru æfingar allar helgar. Um síðustu helgi breyttu stúlkurnar aðeins til og skelltu sér í stórskemmtilega óvissuferð.
Um hádegi á laugardag fengu stúlkurnar létta máltíð á Riverside, Hótel Selfoss þar sem keppnin fer fram 30. mars nk. Þegar allar voru saddar og sælar og komnar í útigallann beið rúta frá ÞÁ bílum fyrir utan.
Leiðin lá í Hveragerði þar sem Úlfar hjá Iceland Activities tók á móti þeim. Hann hefur byggt aparólu yfir fossinn í Varmá og hana fengu stúlkurnar að prófa, tæplega 100 metra ferð á línu. Veðrið hefði mátt vera betra en þær létu það ekkert á sig fá, enda hörkutól.
Eftir skemmtilega adrenalín rússíbanaferð lá leiðin að Vatnsholti til sómahjónanna Margrétar og Jóhanns. Það var vel þegið að skrá sig inn á herbergi í þessu frábæra hóteli og hlýja sér í náttfötunum. Svo var hópurinn ræstur út í gala kvöldverð.
Að honum loknum fengu stúlkurnar sal á hótelinu út af fyrir sig og þar skemmtu þær sér fram á nótt.
Snemma á sunnudagsmorgun beið hafragrautur og kaffibolli áður en stúlkurnar skelltu sér á Hótel Selfoss á æfingu fyrir stóra kvöldið. Frábær ferð að baki full af adrenalíni, slökun og gleði.