800Bar Café Bistró á Selfossi hefur breytt opnunartíma sínum yfir vetrarmánuðina. Meiri áhersla verður lögð á kvöldstemmninguna um helgar í vetur.
„Nú verður opið frá kl. 11-14 alla virka daga með áherslu á heilsusamlokur og djúsa sem hafa fengið frábærar viðtökur hjá okkur í sumar,“ segir Eiður Birgisson veitingamaður á 800bar. „Með öllum samlokutilboðum í hádeginu þar sem borðað er á staðnum fylgir kaffi með í boði hússins,“ segir Eiður og bætir við að minnkandi umferð ferðamanna hafi þessi áhrif á opnunartímann.
„Eftir að ferðamannaumferðin hefur minnkað í haust þá er rólegra hérna seinni hluta dags í miðri viku þannig að það en skynsamlegra að stytta opnunartímann. Ég mun hins vegar leggja meiri áherslu á helgardagskrána í staðinn,“ segir Eiður.
800Bar verður opinn á fimmtudagskvöldum kl. 21-01 og föstudagskvöldum kl. 21-03 en á laugardögum er opið frá kl. 12 á hádegi til kl. 3 að nóttu þar sem enski boltinn verður í beinni útsendingu yfir daginn og á kvöldin verður lifandi tónlist og alltaf frítt inn. Frá fimmtudegi til laugardags verður gleðistund á barnum frá kl. 21-23 með 2 fyrir 1 af bjór og kokteil helgarinnar. Sunnudagsopnunin er síðan frá kl. 12-17.