Kiriyama Family gaf nú á dögunum út sína aðra breiðskífu sem ber nafnið Waiting For…. Platan er plata vikunnar á Rás 2 þessa vikuna.
Aðdragandi plötunnar var langur og strangur en smáskífur hennar hafa fengið að hljóma á öldum ljósvakans í þó nokkurn tíma við góðar undirtektir.
Kiriyama Family samanstendur af sex Sunnlendingum, þeim Karli Magnúsi Bjarnarsyni, Guðmundi Geir Jónssyni, Víði Björnssyni og Bassa Ólafssyni en þau Bjarni Ævar Árnason og Hulda Krístin Kolbrúnardóttir komu ný inn í bandið þegar upptökur stóðu sem hæst.
Platan er samansafn af lögum sem samin voru árin 2012 – 2015 en upptökur fóru fram í upptökuverinu Tónverk í Hveragerði sem er í eigu Bassa Ólafssonar og föður hans Labba í Mánum.
Mikið var lagt í plötuna bæði hvað varðar hljóðgæði og grafík og nostrað við hvert smáatriði. Hljómsveitarmeðlimir sáu alfarið um upptökur, hljóðblöndun og hönnun plötumslags. Mastering var í höndum Grammy verðlaunahafans Brian Lucey sem hefur meðal annars masterað plötur bresku hlómsveitarinnar Arctic Monkeys.
Textar plötunnar eru flestir með þungum undirtón þó svo að lögin séu létt og hress en það er þessi blanda sem einkennir hljómsveitina ásamt 80´s hljóðheim og silkimjúku samspil bassa og tromma.