Þurfum við að taka inn vítamín?

FAGURGERÐI – HEILSA // Þessari spurningu velta margir fyrir sér. Eina stundina er okkur sagt að taka vítamín, þá næstu að vítamín séu skaðleg.

Eina stundina er okkur sagt að það sé nauðsynlegt að taka inn fjölvítamínstöflu því að við náum aldrei að borða nógu mikið magn af mat til að fá öll þau næringarefni sem líkaminn þarfnast. Næstu stundina er okkur sagt að það sé nóg að borða fjölbreyttan mat – þá fái líkaminn allt sem hann þarfnast.

Fólk er skiljanlega orðið alveg ruglað á þessu öllu saman. Sumir þora ekki öðru en að taka inn helling af alls konar vítamínum þó að það borði fjölbreyttan og hollan mat og aðrir halda að þeir séu í góðum málum þó að þeir borði alls konar ruslfæði, því að þeir taka jú inn sín vítamín.

Mörg vítamín innihalda efni sem eru hreinlega skaðleg heilsunni, eins kaldhæðnislega og það kann að hljóma. Mörg vítamín eru einnig þannig samsett að virknin er algjörlega órökétt. Margar fjölvítamínstöflur innihalda t.d. járn og kalk, en kalk vinnur gegn upptöku járns.

Það er ekki að undra að virtir læknar eins og Colin T. Campbell, sem skrifaði m.a. hina merku bók The China Study (2006), mæli eindregið gegn því að fólk taki inn vítamín. Í bók hans Whole (2013) er langur kafli um skaðsemi vítamína. Hann nefnir sem dæmi að appelsínur séu hollar fyrir okkur því að þær innihalda C vítamín en það eru engar sannanir fyrir því að C vítamín í pilluformi, búið til á rannsóknarstofu, sé hollt fyrir okkur. Campbell segir að með því að einangra C vítamínið í pilluformi þá missi það mikilvægar „aukapersónur“ sem gefa C vítamíninu virkni þess. Campbell vísar svo í rannsóknir sem hafa sýnt fram á að hvernig þessi vítamín í pilluformi eru skaðleg okkur – sum stytta meira að segja líf okkar.


Colin T. Campbell.

Það eru fleiri en Campbell sem eru á móti vítamínum í pilluformi. Hráfæðisdrottningin Mimi Kirk er 76 ára og lítur út fyrir að vera amk 20 árum yngri. Í bókinni Live Raw (2011) talar hún um að hún sé ekki hrifin af vítamínum. Hún telur – eins og svo margir aðrir – að það sé best að fá næringarefnin úr matnum sem við borðum en ekki úr einhverjum tilbúnum vítamínspillum.


Mimi Kirk.

Og það eru fleiri sem eru á sama máli. Kimberly Snyder er næringarfræðingur Hollywood stjarnanna og hefur unnið með stjörnum á borð við Drew Barrymore, Ben Stiller, Fergie og mörgum öðrum. Snyder er alfarið á móti þessum tilbúnu vítamínum sem fást í töfluformi. Hún bendir réttilega á að tilbúin vítamín séu kemísk efni sem líkaminn þekkir ekki. Líkami okkar getur álitið þessi tilbúnu efni vera eiturefni og getur þar af leiðandi átt í miklum erfiðleikum með að brjóta þau niður. Ef líkaminn nær að brjóta þessi efni niður þá eru líkur á að hann berjist samt gegn þeim þar sem þau eru kemísk og ónáttúruleg fyrir líkamann.


Kimberly Snyder ásamt leikkonunni Drew Barrymore.

Snyder segir að besta leiðin til að fá vítamín sé eins og náttúran ætlaði okkur – úr matnum sem við borðum. Hún mælir með heilum, lífrænum og óelduðum (raw) mat. Einu vítamínin sem Snyder mælir með eru B12 ef maður er jurtaæta (e. vegan), það er manneskja sem borðar engar dýraafurðir og svo D vítamín ef maður fær ekki nægilega mikið sólarljós (eins og við sem búum á norðlægum slóðum).

Þess má geta að B12 og D vítamín eru einnig einu vítamínin sem Campbell mælir með en hann mælir þó ekki með því að fólk taki þau inn á hverjum degi. Vert er að taka það fram að B12 skortur þekkist líka hjá kjötætum. Þar sem B12 skortur er ekkert grín þá mæli ég með að fólk passi upp á sitt B12.

En vítamín er ekki það sama og vítamín. Mörg vítamín eru full af alls konar aukaefnum sem eiga ekkert skylt við sjálft vítamínið. Skoðið alltaf önnur innihaldsefni eða „other ingredients“ aftan á vítamínsglösunum. Ef það er eitthvað af eftirfarandi efnum í vítamíninu, setjið þá glasið aftur í hilluna eða hendið því í ruslið ef þið hafið nú þegar keypt það:

Ferrous Fumarate
Chromic Chloride
Magnesium Stearate
Manganese Sulfate
Sodium Selenite

Þessi efni eru eitur fyrir líkamann í miklu magni. Það er því e.t.v. ekki að undra að sum vítamín stytti hreinilega mannsævina. Þessi grein hér útskýrir svo betur hvað hvert og eitt efni gerir.

Vítamín ættu að vera án allra aukaefna. Þegar þið veljið vítamín leitið þá eftir „100 percent natural“ (100% náttúrulegt), „no fillers“ (engin fylliefni) og „no GMO“ (engin erfðabreytt efni). Vítamín ættu einnig að vera án litarefna og bragðefna. Allra best er ef vítamín eru lífræn og frostþurrkuð. Þannig viðhalda næringarefnin sér best en mörg vítamín er búið að vinna svo mikið að sáralítið er orðið eftir af virka efninu.

Ég mæli með því ef þið kaupið vítamín að kaupa frekar jurtir. Ég trúi á lækningarmátt náttúrunnar, hvort sem það er að dveljast út í náttúrunni eða nýta sér gjafir hennar, það er jurtirnar. Ef ykkur vantar járn ekki kaupa þá járntöflur, kaupið heldur spirulina sem er sérlega járnríkt. Ef ykkur vantar C vítamín, ekki kaupa þá C vítamínstöflur, kaupið heldur camu camu duft/töflur sem er unnið úr camu camu ávextinum en hann er sérlega C vítamínsríkur. Ef ykkur vantar joð þá er gott að taka inn kelp sem er ákveðin tegund af þara. Svo mætti lengi telja. Fyrir alla munið veljið gæði fram yfir verð og lesið alltaf innihaldslýsinguna. Það er hreint ótrúlegt hvað það getur leynst mikið af alls konar aukaefnum í einni lítilli vítamínspillu.

En hver er þá niðurstaðan? Þurfum við að taka inn vítamín eða ekki? Í stuttu máli sagt er svarið nei. Einu vítamínin sem er ráðlagt að taka inn er B12 og D vítamín. Öll önnur vítamín getum með auðveldum hætti fengið úr fæðunni – svo framarlega að við borðum fjölbreyttan og litríkan mat. Og ef ykkur finnst þið þurfa að taka inn fæðubótarefni, kaupið þá jurtir sem innihalda ákveðið vítamín. Þannig komist þið næst náttúrunni.

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinStrætóferðum fjölgað í Árborg
Næsta greinSveitarfélagið kaupir Hallskot