FAGURGERÐI – MATUR // Þessi súkkulaðimús er meinholl.
Lífrænt raw kakó er sneisafullt af andoxunarefnum og steinefnum, eins og til dæmis magnesíum og járni. Döðlur eru ríkar af járni, selen, mangan, kopar og magnesíum og eru sérlega góðar fyrir meltinguna, svo fátt eitt sér nefnt. Avocado inniheldur svo hvorki meira né minna en 25 nauðsynleg næringarefni, þar á meðal, B, C, E, og K vítamín, kopar, járn, magnesíum og kalíum. Avocado er auk þess trefja- og próteinríkt og inniheldur hollar og góðar fitur fyrir líkamann. Það ættu allir að borða eins og eitt avocado á dag. Ég set alltaf eitt stykki í smoothie-inn minn en svo nota ég avocado í alls konar rétti eins og til dæmis þessa súkkulaðimús.
Þessi súkkulaðimús er svo holl að þið getið borðað hana í morgunmat. Ég mæli nú samt frekar með grænum og vænum smoothie.
Hráefni:
2 stykki stór og vel þroskuð avocado
1/3 bolli raw kakó (eða bara lífrænt og sykurlaust ef raw er ekki fáanlegt)
1/4 bolli kókosmjólk
8 stykki döðlur
1 tsk lífræn vanilla
smá sjávarsalti
Aðferð:
1. Saxið döðlurnar smátt niður og setjið í skál með kókosmjólkinni. Látið döðlurnar liggja í kókosmjólkinni í að minnsta kosti 10 mínútur.
2. Setjið kakóið, vanilluna og sjávarsaltið í skálina með kókosmjólkinni og döðlunum og hrærið vel saman.
3. Skerið avocadoið í grófa bita og blandið saman við.
4. Blandið síðan öllu vel saman með töfrasprota. Getið líka skellt öllu í blandara ef þið eigið ekki töfrasprota. Þegar blandan er orðin silkimjúk og kekkjalaus er hún tilbúin. Þið getið svo sett músina inn í ísskáp í svolitla stund ef þið viljið borða hana kalda, en það er engin nauðsyn. Skreytið síðan með kókosflögum og kakónibbum. Ofsa gott og ofsa hollt.
ATH. Þetta er ekta uppskrift sem maður smakkar til. Ég set oftast meira kakó því að ég vil hafa mikið kakóbragð. Ef þið viljið hafa músina þynnri þá setjið þið meira af kókosmjólk. Eins ef þið viljið hafa músina sætari þá setjið þið fleiri döðlur. Verið óhrædd við að prófa ykkur áfram og aðlaga uppskriftina að ykkur.
Njótið!
johanna@fagurgerdi.is