Banana- og bláberjaís (vegan)

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi uppskrift er ofur einföld. Svo einföld að ég var fyrst að spá að setja hana ekki inn.

En það er alveg nauðsynlegt að hafa ofur einfaldar uppskriftir í bland við þær sem eru flóknari.

Þennan ís geri ég mjög oft og hef gert í nokkur ár. Þetta er uppáhalds ísinn minn enda sjúklega góður og hollur.

Allir sem hafa smakkað þennan ís hjá mér hafa verið sig hrifnir af honum. Eins árs sonur minn gjörsamlega dýrkar hann.

Hráefni

  • 3 stk frosnir bananar*
  • 1 bolli frosin bláber
  • 10 stk döðlur

* Vel þroskaðir bananar eru afhýddir og skornir í meðalstóra bita og frystir, annað hvort í boxi eða í poka (og passa þá að þeir séu ekki allir í kremju í pokanum)

Aðferð:

  1. Setjið bananabitana í matvinnsluvél og blandið þar til áferðin er orðin eins og áferðin á ís.
  2. Setjið bananaísinn í ílát og leggið til hliðar.
  3. Setjið bláberin og döðlurnar í matvinnsluvélina og blandið vel saman.
  4. Setjið bláberjablönduna í ílátið með bananaísnum og blandið létt saman með skeið. Blandið þannig að þetta tvennt blandist saman en samt ekki of mikið. Við viljum að bananaísinn og bláberjablandan fái að njóta sín í sitthvoru lagi líka.
  5. Lokið ílátinu og setjið inn frysti í nokkrar klukkustundir.
  6. Skammtið ykkur í skál og njótið.

Bananaísinn tilbúinn.

Bláberja-döðlumaukið komið ofan í skálina.

Búið að blanda saman bananaísnum og bláberja-döðlumaukinu.

Ísinn tilbúinn.

Þennan ís má þess vegna borða í morgunmat 🙂

Fyrri greinMarkaði djúp spor í viðgerð Ölfusárbrúar
Næsta greinBræðralög í Hlöðunni