FAGURGERÐI – MATUR // Þessar smákökur eru ekkert venjulega góðar.
Ég gæti léttilega borðað þær í öll mál 🙂
Þessar smákökur eru líka án glútens, eggja, mjólkur, hneta og annarra algengra ofnæmisvalda. Þær ættu því að henta flestum.
Eina sætan sem er í smákökunum er náttúruleg sæta svo að það má segja að þessar smákökur sé bara ansi hollar.
Hráefni:
- 2 vel þroskaðir bananar
- 2 msk carob duft (eða kakó ef þið finnið ekki carbo)
- 1 tsk ceylon kanill
- ½ tsk lífræn vanilla (duft en ekki dropar)
- Smá sjávarsalt
- 7 stk apríkósur
- 7 stk döðlur
- 1 ½ bolli glútenlaust haframjöl (ég notaði frá Amisa)
Aðferð:
- Stillið ofninn á 180° (með blæstri).
- Setjið banana í skál og stappið þeim vel saman.
- Setjið carob duftið (eða kakóið), kanilinn, vanilluna og sjávarsaltið í skálina og blandið vel saman við bananana (gott að nota gaffalinn áfram).
- Saxið apríkósurnar og döðlurnar smátt niður og setjið í skálina. Blandið vel saman.
- Setjið haframjölið í skálina og blandið vel saman með sleikju.
- Setjið bökunarpappír á ofnplötu.
- Notið tvær matskeiðar til forma smákökurnar. Gott er að miða við 1 matskeið í hverja smáköku. Einnig er gott að nota skeiðina til að slétta úr deiginu þannig að smákökurnar verði flatar en þið ráðið að sjálfsögðu hvernig þið viljið hafa smákökurnar í laginu.
- Setjið inn í ofn og bakið í 12 mínútur.
- Takið úr ofninu og leyfið smákökunum að kólna örlítið.
Njótið!
ATH. #1 Ef þið notið cassia kanill, eða „venjulegan kanil“, þá er betra að setja aðeins ½ tsk þar sem ceylon kanillinn er mildari á bragðið.
ATH. #2 Aðal munurinn á carob dufti og kakódufti er að carob er án koffíns og því ekki örvandi eins og kakóduftið. Bragðið er mjög svipað, carob er þó örlítið mildari/sætara en kakóduftið.
ATH. #3 Ef þið eruð ekki mikið fyrir súkkulaði – og notið venjulegt kakóduft í uppskriftina – þá er ágætt að setja bara 1 msk af kakóduftinu.