FAGURGERÐI – MATUR // Þessar bananakökur eru svo hollar að það má borða þær í morgunmat.
Þeir sem nota Pinterest til að leita að uppskriftum hafa eflaust rekist á margar smákökuuppskriftir sem innihalda banana og haframjöl. Ég hef prófað margar útgáfur af þessari samsetningu og allar hafa þær verið nokkuð vel heppnaðar. Þessi uppskrift samanstendur af mörgum svona uppskriftum. Það má segja að uppskriftin sé brot af þvi besta.
Hráefni:
3 stk vel þroskaðir bananar
1 bolli möndlusmjör
1/3 bolli eplamauk (ég mæli með frá Sollu)
1/2 tsk kanill
1/2 tsk sjávarsalt
1/2 tsk lífræn vanilla
3 bollar gróft haframjöl (ég notaði glúteinlaust haframjöl, old fashioned rolled oats, frá Bob’s Red Mill)
1 bolli kókosmjöl
100 gr dökkt súkkulaði (ég mæli með frá Sollu)
Aðferð:
1. Stillið bakaraofninn á 180°C (með blæstri).
2. Stappið bananana saman í skál.
3. Stappið möndlusmjörinu saman við bananana.
4. Setjið eplamaukið í skálina og blandið vel saman við með sleikju eða bara gaffli.
5. Setið kanilinn, sjávarsaltið og vanilluna í skálina og blandið vel saman.
6. Setjið haframjölið og kókosmjölið í skálina og blandið vel saman.
7. Saxið súkkulaðið niður og blandið vel saman.
8. Setjið bökunarpappír á tvær ofnplötur.
9. Notið skeið til að búa til litlar kúlur á stærð við borðtenniskúlu og setjið á ofnplöturnar. Þið getið líka notað hendurnar eins og ég gerði en þið eruð þá ekki mikið að fara að svara í símann á meðan 🙂
10. Setjið ofnplöturnar í bakaraofninn og bakið í sirka 10 mínútur.
11. Látið kökurnar kólna í sirka 10 mínútur (ef þið getið beðið svo lengi).
ATH. Ég hvet ykkur eindregið til að laga þessa uppskrift – sem og aðrar – að ykkar smekk. Það er líka gott að kurla hnetur og setja saman við, setja kakónibbur í staðinn fyrir súkkulaðið eða bara sleppa súkkulaðinu alveg. Eins er gott að nota aðra sætu en eplamauk, t.d. hunang eða hlynsíróp (ath. þá þurfið þið minna magn). Látið tilfinninguna ráða og leikið ykkur með hráefnin. Matargerð er mitt jóga enda róandi og skemmtilegt sport.
Njótið!
johanna@fagurgerdi.is