FAGURGERÐI – MATUR // Þetta súkkulaði er alveg meiriháttar gott!
Súkkulaðigerðin er hvorki flókin eða tímafrek. Allir ættu að geta búið til þetta undursamlega, bragðgóða og síðast en ekki síst holla súkkulaði 🙂
Það er ótrúlegt hvað það munar miklu að kurla berin niður í staðinn fyrir að hafa þau heil. Með því að kurla þau niður blandast þau súkkulaðinu betur og verða einhvern veginn hluti af því í staðinn fyrir að vera „súkkulaði með þurrkuðum berjum“.
Þetta súkkulaði er alveg ekta til að eiga til í frystinum þegar mann langar í eitthvað sætt – eða þá til að eiga til að bjóða gestum. Það er að segja ef þið tímið að deila því með ykkur 🙂
Hráefni:
- ½ bolli gojiber
- ½ bolli mórber
- 1 bolli kókosflögur
- 1 plata dökkt súkkulaði (ég notaði 85%)
- ½ bolli kókosmjólk (full fat)
- 2 msk akasíuhunang (ég notaði raw frá Biona)
Aðferð:
- Byrjið á því að setja gojiberin og mórberin í matvinnsluvél og kurlið vel niður.
- Setjið berjakurlið í meðalstóra skál.
- Myljið kókosflögurnar niður og setjið saman við berjakurlið. Setjið til hliðar á meðan þið bræðið súkkulaðið.
- Bræðið súkkulaði í vatnsbaði ásamt kókosmjólkinni. Hrærið vel saman með skeið þannig að súkkulaðið og kókosmjólkin blandist vel saman og verði að „súkkulaðisósu“.
- Þegar súkkulaðið er orðið fljótandi, takið þá pottinn af hellunni og setjið hunangið saman við. Hrærið vel saman með skeið.
- Hellið súkkulaðinu yfir kókos- og berjakurlið og blandið vel saman með sleikju eða skeið.
- Notið tvær teskeiðar til að setja súkkulaðið í lítil slíkonform. Ef þið eigið ekki sílikonform þá getið þið líka sett það beint á bökunarpappír (með hörðu undirlagi, t.d. skurðbretti).
- Setjið inn í frysti í 30 mínútur eða svo.
Njótið!