Dásamlegar raw pekan muffinskökur með karamellu

FAGURGERÐI – MATUR // Þessar pekan muffinskökur gerði ég fyrir síðasta Kakónibbuhitting sem ég hélt.

Það er alveg extra gaman að búa til eitthvað góðgæti fyrir Kakónibburnar mínar því að ég veit að þær kunna gott að meta. Það eru nefnilega alls ekki allir sem kunna að meta hollustunammi, því miður.

En að uppskriftinni. Hún er sáraeinföld og inniheldur temmilega mörg hráefni. Maður þarf heldur ekki að hafa farið á eitthvað fansí hráfæðisnámskeið til að kökurnar heppnist sem skyldi. Allir ættu að geta gert þetta góðgæti.

Botninn:

  • 2 bollar pekanhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
  • 1 plata dökkt súkkulaði (ég notaði 85%)
  • 2 msk kókosolía

Aðferð:

  1. Hellið vatninu af pekanhnetunum og skolið hneturnar örlítið.
  2. Setjið hneturnar á skurðbretti og saxið smátt niður.
  3. Setjið hneturnar í skál og leggið til hliðar.
  4. Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði ásamt kókosolíunni.
  5. Þegar súkkulaðið er orðið fljótandi, hellið því þá í skálina sem pekanhneturnar eru í og blandið vel saman með skeið eða sleikju.
  6. Setjið pekan-súkkulaðiblönduna í sílíkonform (í muffinsköku-stærð). Þessi blanda dugar í 12 muffinskökur. Það er sirka 1 msk í hvert form.
  7. Geymið sílíkonformin á borðinu á meðan þið búið til karamelluna.

Karamellan:

  • 1 bolli döðlur
  • 3 msk dökkt möndlusmjör (ég mæli með frá Biona)
  • 1 tsk lífræn vanilla (duft en ekki dropar)
  • ¼ tsk sjávarsalt

Aðferð:

  1. Setjið döðlurnar í skál og hellið sjóðandi heitu vatni yfir þær. Látið bíða í skálinni í amk 10 mínútur.
  2. Hellið vatninu af döðlunum og setjið í ílát ásamt restinni af hráefninu og blandið vel saman með töfrasprota.
  3. Blandan er tilbúin þegar hún er orðin silkimjúk og kekkjalaus.
  4. Setjið karamelluna í sílíkonformin. Best er að nota skeið til þess og slétta svo úr með hníf. Skreytið með pekanhnetum ef þið viljið.
  5. Setjið sílíkonformin inn í frysti. Best er að geyma yfir nótt. Annars ættu 2-3 klst að duga. Athugið að karamellan verður alltaf frekar mjúk, alveg sama hversu lengi hún er í frystinum.
  6. Ekki er þörf á að láta pekan muffinskökurnar þiðna á borðinu áður en þær eru borðar – þær eru tilbúnar til átu um leið 🙂

Njótið!

Fyrri greinHljómaskál í Skálholti
Næsta greinAthuga möguleika á meðhöndlun úrgangs í Neslandi