Dásamlegar raw súkkulaði brownies

FAGURGERÐI – MATUR // Þessar súkkulaði brownies eru algjört sælgæti! Ef þið elskið súkkulaði þá eigið þið heldur betur eftir að elska þessar brownies.

Það besta við þessar brownies að þær innihalda einungis heilnæm hráefni sem kæta og gleðja frumur líkamans. Svo eru þær líka vegan og glútenfríar þannig að þær ættu að henta flestum.

Já og svo er maður enga stund að búa þessar súkkulaði brownies til, sem er alltaf stór kostur.

Botninn:

  • 1 ½ bolli valhnetur
  • 2 ½ bolli döðlur (ég notaði ferskar)
  • ½ bolli ósætt kakó (ég notaði frá Sólgæti)
  • 1 tsk lífræn vanilla (duft en ekki dropar)
  • Smá sjávarsalt
  • ¼-½ bolli vatni

Kremið:

  • ¼ bolli ósætt kakó
  • ¼ bolli hlynsíróp
  • ½ tsk lífræn vanilla (duft en ekki dropar)
  • 3 msk kókosolía, við stofuhita

Aðferð:

  1. Setjið valhneturnar, döðlurnar, kakóið, vanilluna, saltið og vatnið í matvinnsluvél og blandið þar til blandan er orðin silkimjúk.
  2. Setjið blönduna í kassalaga form og dreifið vel úr með sleikju. Gott er að setja bökunarpappír undir því að þessar súkkulaði brownies geta orðið svolítið klístraðar.
  3. Þá er að gera kremið. Setjið kakóið, hlynsírópið og kókosolíuna í skál og blandið vel saman með litlum písk. Hellið kreminu yfir botninn og setjið formið inn í frysti í sirka klukkutíma. Þá eru þessar dásamlegu súkkulaði brownies tilbúnar.

Njótið!

ATH. #1 Passið að setja bara lítið vatn í einu – jafnvel minna en ¼ bolla til að byrja með. Það skiptir máli hversu mjúkar döðlurnar eru – ef þær eru mjög mjúkar þá þurfið þið lítið vatn. Því meira vatn sem þið setjið því klístraðra verður deigið.
ATH. #2 Ef þið notið ferskar döðlur, munið þá að fjarlægja steinana.

Fyrri greinFSu er Fyrirmyndarfélag ÍSÍ
Næsta grein„Vantaði gífurlega lítið upp á“