FAGURGERÐI – MATUR // Þetta súkkulaði er alveg bráðhollt!
Það inniheldur holla og góða fitu, andoxunarefni, magnesíum, flavonóíð og ýmislegt fleira sem kætir og nærir frumur líkamans.
Botninn:
- 1 bolli valhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
- 1 bolli döðlur
- 1 msk kakónibbur
- ½ tsk lífræn vanilla (duft en ekki dropar)
- Smá sjávarsalt
Aðferð:
- Hellið vatninu af valhnetunum og skolið hneturnar með volgu vatni.
- Setjið valhneturnar í matvinnsluvél og kurlið vel niður.
- Setjið döðlurnar, kakónibburnar, vanilluna og sjávarsaltið í matvinnsluvélina og blandið öllu vel saman.
- Setjið valhnetumaukið í meðalstór sílikonform (sem passar muffinskökum). Þetta passar vel í sex form. Gott er að nota matskeið til að skipta valhnetumaukinu á milli formanna. Sléttið einnig úr maukinu með skeðinni.
- Setjið formin inn í frysti í klukkutíma (eða lengur).
Súkkulaðið:
- ½ bolli kakósmjör
- ½ bolli hreint kakó (ég notaði frá Sólgæti)
- ¼ bolli akasíuhunang (ég notaði raw frá Biona)
- 1 msk lucuma
- ½ tsk lífræn vanilla (duft en ekki dropar)
- Smá sjávarsalt
+ kókosflögur til að skreyta með
Aðferð:
- Bræðið kakósmjörið í vatnsbaði. Fyrir þá sem vita ekki hvað það þýðir þá snýst það um að setja skál með kakósmjöri í pott með vatni. Kveikja svo undir hellunni (ég set alltaf á hæsta straum) og bíða eftir að hitinn frá vatninu bræði kakósmjörið í skálinni. Ég á sjálf skál með skafti sem hangir yfir pottinum (kemur ekki við botninn) sem ég keypti einhvern tímann í IKEA fyrir löngu síðan 🙂
- Á meðan kakósmjörið er að bráðna, setjið þá kakóduftið, lucuma duftið, vanilluna og sjávarsaltið í skál og blandið vel.
- Þegar kakósmjörið er orðið fljótandi, hellið því þá í skálina með þurrefnunum ásamt hunanginu. Blandið öllu vel saman með litlum písk.
- Takið sílikonformin úr frystinum og hellið súkkulaðinu í formin. Gott er að nota stóra skeið eða mjög litla ausu til að skipta súkkulaðinu nokkuð jafnt á milli formanna.
- Best er að leyfa súkkulaðinu að harðna örlítið áður en þið myljið kókosflögurnar yfir. Ef þið voruð með fomin inn í frysti í meira en klukkutíma þá ætti súkkulaðið að byrja harðna fljótlega eftir að þið hellið því í formin. Kuldinn frá valhnetumaukinu er fljótur að koma kakósmjörinu aftur í fast form. Annars getið þið líka skellt fomunum aftur inn í frysti í sirka 10 mínútur en passið að láta súkkulaðið ekki verða hart í gegn.
- Myljið kókosflögunum yfir. Magn eftir smekk. Best ef kókosflögurnar sökkvi örlítið ofan í súkkulaðið en hverfi samt ekki alveg ofan í það 🙂
- Setjið formin aftur inn í fyrsti í sirka klukkutíma. Þá er þetta dásamlega valhnetusúkkulaði tilbúið.
Njótið!