DIY Iittala borð

FAGURGERÐI – HEIMILIÐ // Ég er búin að vera með þessa hugmynd lengi á teikniborðinu og lét loks verða af því að framkvæma hana.

Aalto trébrettið hef ég átt í nokkur ár og mig hefur alltaf langað til að prófa að breyta því í borð, sem ég lét svo verða af í síðustu viku og er ég nokkuð ánægð með útkomuna. Sérstaklega þar sem framkvæmdin kostaði lítið og þetta tók mjög stuttan tíma.

Efni:
iittala Aalto trébretti – kr. 13.900 Motivo
Fætur af Frosta kolli – kr. 1.190 IKEA
Hvítt lakk, gulllitað sprey, skrúfur – ca kr. 3.000 Húsasmiðjan / Byko

A.T.H. ef þið notið málningu þá er hægt að kaupa prufudós þannig að ekki þarf að eyða pening í að kaupa 1 ltr. dós.

Ég notaði þrjá fætur af IKEA Frosta kollinum og málaði þær hvítar með hvítu lakki sem ég átti. Það er hægt að nota sprey eða venjulega málningu bara eftir því hvernig áferð þið eruð að leyta eftir. Ef þið notið hvítt lakk þá þarf það að þekja vel annars þarf að fara ansi margar umferðir, eða þá að grunna eða mála eina umferð með hvítri málningu og setja svo hvíta lakkið yfir. Ef notast er við sprey ætti að duga að spreyja 2-3 umferðir. Athugið að láta líða dágóðan tíma á milli umferða eða þann tíma sem sagt er til um á umbúðum.

Ef þið viljið hafa fæturnar einlitar þá má auðvitað sleppa næsta skrefi en ég vildi setja smá details á fæturnar.

Þegar fæturnar eru orðnar þurrar, mæli með að láta þær bíða yfir eina nótt, þá límdi ég með málningarteipi hringinn í kringum hvern fót í þeirri hæð sem ég vildi að gullliturinn myndi ná. Síðan límdi ég A4 blað fyrir ofan þannig að spreyjið myndi ekki dreifast á efri hlutann. Ég þurfti aðeins að spreyja eina umferð með gullspreyjinu því það þekur mjög vel en í sumum tilfellum gæti alveg þurft að spreyja 2 umferðir. Þið metið það bara sjálf.

Þegar þetta er orðið þurrt þá má taka límbandið af og fætur eru klárar til að setja undir borðið.

Það fylgja skrúfur með IKEA kollinum en mér fannst öruggara að kaupa örlítið styttri skrúfur þar sem setan á kollinum er örlítið þykkari en iittala brettið. Ég fór bara með skrúfuna og bað um ½ cm styttri skrúfur – 9 stk.

Næsta skref er svo bara að skrúfa fæturnar við trébrettið. Leggið brettið á hvolf og skrúfið 1-2 skrúfur í hvern fót til að byrja með og bætið síðan 3 skrúfunni í allar fæturnar í lokin. Ekki herða allar skrúfurnar fyrr en búið er að stilla allar fætur af. Myndin sýnir hvernig mér fannst best að staðsetja fæturnar en það má alveg draga þær aðeins meira út og þá verður borðið örlítið stöðugra.

Passið bara að nota ekki of langar skrúfur þannig að þær fari ekki í gegnum brettið.

Í glugganum í Motivo má svo sjá borðið og þar verður einnig hægt að fá útprentaðar leiðbeiningar.

Gangi ykkur vel.

asta@fagurgerdi.is

Fyrri greinÁrborg náði í stig í Vogunum
Næsta greinGóður kippur í Eystri-Rangá