Fylltar paprikur með kasjúhnetuosti

FAGURGERÐI – MATUR // Ég geri mjög reglulega fylltar paprikur enda fljótlegur og góður réttur.

Þessi fylling hér er í miklu uppáhaldi hjá mér og öðrum sem hafa smakkað.

Hráefni:
3 stk litlar lífrænar sætar kartöflur
1 bolli kjúklingabaunir (eldaðar)
1 box sveppir
2 msk næringarger
2 msk kókosolía, við stofuhita
Eðal-hvítlaukssalt
Cayennepipar
Rauðar paprikur, sirka 5 stk en fjöldi fer þó eftir stærð

Aðferð:
1. Stillið bakaraofninn á 160°C (með blæstri).
2. Skerið sætu kartöflurnar langsum og setjið á ofnplötu og inn í ofn í 60 mínútur.
3. Leyfið kartöflunum að kólna aðeins áður en þið fjarlægið hýðið af þeim.
4. Setjið kartöflurnar í stóra skál ásamt kjúklingabaunum og stappið vel saman.
5. Setjið næringargerið og kókosolíuna í skálina og kryddið með hvítlaukssalti og cayennepipar. Passið að setja ekki of mikið af cayennepiparanum þar sem hann er mjög bragðsterkur. Stappið vel.
6. Saxið sveppina nokkuð smátt niður og setjið í skálina. Blandið vel saman með sleikju.
7. Skerið paprikunar langsum og fræhreinsið.
8. Setjið fyllinguna í paprikubátana með skeið. Fyllið vel upp í (gott að þjappa aðeins með skeiðinni).
9. Setjið kasjúhnetuostinn yfir (sjá uppskrift hér), magn fer eftir smekk en það er gott að miða við sirka 1 kúfaða msk á hvern paprikubát. Þegar þið eruð búin að setja kasjúhnetuostinn á paprikubátana er gott að setja smá svartan pipar yfir.
10. Setjið paprikubátana inn í bakaraofn í sirka 25 mínútur á 180°C (með blæstri).
11. Takið paprikubátana úr ofninum og leyfið að kólna í smá stund áður en þið borðið.

Njótið!

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinLögreglan fylgist með köfurum og ökumönnum
Næsta greinÁrborg og Stokkseyri töpuðu