FAGURGERÐI – MATUR // Þegar fer að kólna í veðri finnst mér alveg ómissandi að fá mér heita og bragðgóða súpu. Súpu sem vermir og nærir kroppinn. Þessi súpa uppfyllir allar þær kröfur.
Fyrirmyndin að súpunni er uppskrift sem ég klippti út úr Vikunni fyrir einhverjum árum. Uppskriftina hafði ég límt í uppskriftabókina mín sem geymir samansafn af alls konar uppskriftum alveg síðan ég var í grunnskóla (það er t.d. ágætt að eiga það einhvers staðar niðurskrifað hvernig er best að elda hafragraut!) 🙂
Ég rak svo augun í uppskriftina fyrir algjöra tilviljun þegar ég var að leita að annarri uppskrift núna um daginn. Einhverra hluta vegna hafði ég aldrei prófað að elda þessa súpu þar til nú um helgina.
Ég breytti hlutföllunum aðeins og bætti við fleirum kryddum. Ef ég sé tækifæri til að nota túrmerik í matargerð þá geri ég það hiklaust enda dásamlegt krydd fyrir líkamann (og heilann).
Hráefni:
1 msk kókosolía
1 laukur
1 rauðlaukur
4 hvítlauksrif
1 stór sæt kartafla eða tvær litlar (ef þið notið t.d. lífrænar)
5 meðal stórar gulrætur
1 stór rauð paprika
400 ml maukaðir tómatar (það er ein flaska frá Sollu)
1.5 l vatn
400 ml kókosmjólk
2 msk tómatpúrra
2 msk karrý
2 msk grænmetiskraftur
1 tsk paprikukrydd
1 tsk túrmerik
1 tsk garam masala
1 tsk sjávarsalt
Svartur pipar
Safi úr 1/2 lime
Aðferð:
1. Saxið laukana niður, pressið hvítlaukinn og steikið ásamt karrýinu í kókosolíunni. Notið stóran pott og hafið stillt á hæsta straum á meðan þið steikið grænmetið. Ef ykkur finnst vanta meiri vökva setjið þá vatn í pottinn þar sem það er óþarfi að setja meiri olíu.
2. Flysjið sætu kartöfluna og skerið niður í teninga. Skerið einnig paprikuna og gulræturnar niður. Setjið í pottinn og steikið þar til grænmetið fer að mýkjast.
3. Bætið maukuðu tómötunum, kókosmjólkinni, vatninu út í ásamt tómatpúrrunni, grænmetiskraftinum, paprikukryddinu, túmerkinu, garam masala og sjávarsaltinu. Setjið smá svartan pipar, en ekki of mikið þó. Hrærið í súpunni.
4. Látið koma upp suðu og látið svo súpuna malla á vægum hita í um 30 mínútur.
5. Smakkið súpuna til. Kannski viljið þið bæta við meiri svörtum pipar eða sjávarsalti. Munið bara að krydda lítið í einu þar sem það er erfitt að taka það til baka ef maður kryddar of mikið.
6. Takið pottinn af hellunni og kreistið safa úr 1/2 lime. Safi úr lime eða sítrónu gerir ótrúlega mikið fyrir grænmetissúpur (og reyndar marga aðra rétti).
ATH. #1 Ég mæli með að skera niður allt grænmeti og hafa það tilbúið áður en þið kveikið undir pottinum.
ATH. #2 Ef þið borðið fisk þá er mjög gott að setja 450 gr af rækjum út í súpuna. Þið setjið þá rækjurnar út í þegar hún er búin að malla í 30 mínútur og hitið að suðu.
ATH. #3 Eins og með flestar allar súpur þá er þessi súpa enn betri daginn eftir. Og ennþá betri á þriðja degi. Munið bara að geyma pottinn inn í ísskáp 🙂
Njótið!
johanna@fagurgerdi.is