FAGURGERÐI – MATUR // Þessar pizzur voru sérstaklega gerðar fyrir lágkolvetna vini mína.
Hráefni
- 2 msk chiafræ, möluð
- 1 ½ dl vatn
- 250 gr möndlumjöl
- 2 tsk oreganó
- ½ tsk sjávarsalt
- 1 msk næringarger
Aðferð:
- Byrjið á því að stilla bakaraofninn á 180°C (með blæstri).
- Blandið möluðu chiafræunum og vatninu saman og látið standa við stofuhita í amk 10 mín eða þar til þau eru orðin að þykku hlaupi.
- Setjið þurrefnin í skál og blandið vel saman.
- Setjið chiafræblönduna í skálina með þurrefnunum og blandið vel saman með sleikju – eða bara skeið.
- Setjið bökunarpappír á ofnplötu.
- Hnoðið deigið létt á borðinu og skiptið því fyrst í tvo helminga. Og svo aftur í tvo helminga eða þannig að þið eruð komin með fjórar litlar kúlur.
- Setjið kúlurnar á ofnplötuna og þrýstið með flötum lófa á hverja kúlu eða þannig að kúlurnar fletjist vel út. Gott er að móta hverja pizzu betur með fingrunum (og fletja í leiðinni betur út botninn/kúluna).
- Setjið ofnplötuna inn í ofn og bakið í 10 mínútur.
- Takið úr ofninum og setjið sósu og það álegg sem þið viljið. Á þessar pizzur setti ég: Spínat, sveppi, rauða papriku og rauðlauk + vegan mozzarella ost + smá svartur pipar yfir.
- Setjið plötuna aftur inn í ofn og bakið í sirka 12 mínútur.
- Takið úr ofninum og njótið!
ATH. #1 Ég hef bæði prófað að nota möndlumjöl frá NOW og Sólgæti og ég verð að segja eins og er að möndlumjölið frá Sólgæti er mun betra.
ATH. #2 Þið getið líka malað möndlur sjálf í blandaranum þannig að þær verða að mjöli (það er ódýrara).
ATH. #3 Það er algjör óþarfi að kaupa tilbúin möluð chiafræ. Það er mjög einfalt að mala chiafræin sjálfur í blandaranum. Passið bara að hafa blandarann ekki of lengi í gangi. Í Vitamixernum mínum tekur það bara örfáar sekúndur að mala fræin niður í duft.
ATH. #4 Þessar pizzur eru MJÖG saðsamar. Ég er algjört matargat en varð södd eftir 1 og ½ pizzu (ein pizza hefði meira að segja dugað mér).