Guðdómlegur chiabúðingur

FAGURGERÐI – MATUR // Það eru ekki mikið meira en fjögur ár síðan ég byrjaði að borða chiafræ.

Í dag finnst mér þau svo sjálfsagður staðalbúnaður í eldhúsinu að mér finnst eiginlega ótrúlegt hvað það er í raun stutt síðan ég uppgötvaði þau.

En hvað er eiginlega svona frábært við chiafræ? Fyrir þá sem ekki vita (og hafa kannski ekki enn lagt í það að kaupa/smakka svoleiðis) þá eru chiafræ rík af:

  • Omega 3
  • Kalki
  • Andoxunarefnum
  • Magnesíum
  • Járni
  • Trefjum
  • Próteini
Chiabúðingurinn er sáraeinfaldur, inniheldur temmilega mörg hráefni og tekur ekki langan tíma í framkvæmd. Bara að allar uppskriftir væru þannig, ha?
Hráefni
  • 1/4 bolli chiafræ (ég notaði frá Raw Chocolate Company)
  • 1 bolli möndlumjólk (annað hvort keypt eða heimatilbúin)
  • 1/2 msk raw kakóduft (eða bara hreint, ósykrað ef raw er ekki fáanlegt)
  • 1/2 tsk lífræn vanilla (duft)
  • Nokkrir dropar af stevíu
Aðferð
  1. Setjið chia-fræin í skál ásamt möndlumjólkinni, kakóduftinu, vanillunni og stevíunni og hrærið saman með písk.
  2. Hellið blöndunni í blandara og blandið vel saman.
  3. Hellið í skál og geymið inn í ísskáp í sirka 30 mín (eða lengur).
  4. Hrærið aðeins í búðingnum áður en þið framreiðið hann.
  5. Skreytið með gojiberjum, kókosflögum eða bláberjum (fallegur matur bragðast alltaf aðeins betur).
ATH. #1 Passið ykkur að setja ekki of mikið af stevíunni. Ég setti 5 dropa og það var í það mesta. Næst mun ég setja 3 dropa (jafnvel minna) og bæta frekar við ef mér finnst vanta meiri sætu.
ATH. #2 Í staðinn fyrir að setja fyrst allt í skálina getið þið sett allt hráefnið beint í blandarann. Mér fannst þó betra að blanda þessu fyrst gróflega saman í skál svo að blandan þyrfti skemmri tíma í blandaranum.
Njótið!
Fyrri greinHSK vann tvo flokka
Næsta greinNafn mannsins sem lést