FAGURGERÐI – MATUR // Fyrir skömmu bað ég Facebook-vini Vanilla & lavender að koma með uppástungu að nýjum rétti sem ég myndi búa til.
Heiða vinkona mín vildi sjá „auðveldan og námsmannavænan [rétt] (má geymast í boxi og hita seinna) hádegismat“
Og til varð þetta pasta.
Ég var fyrst að spá í að kalla hann „pastarétt fátæka námsmannsins“ en sú hugsun staldraði við í sirka tvær sekúndur. Námsmenn eru nefnilega allt annað en fátækir þó að þeir eigi kannski ekkert rosalega mikið af peningum á meðan náminu stendur. Sú menntun og þekking sem þeir afla sér í náminu er mikið ríkidæmi sem þeir búa að alla ævi – hvað svo sem þeir ákveða svo að gera við þessa menntun.
Þannig að rétturinn hlaut einfaldlega nafnið Heiðupasta enda er hann fallegur og góður eins og Heiða er sjálf 🙂
Þessi pastaréttur er einfaldur, saðsamur og síðast en ekki síst – hollur. Er hægt að biðja um mikið meira þegar kemur að mat?
Uppskriftin miðast við einn til að borða í kvöldmat og svo til að taka með í nesti daginn eftir. Ef þið eldið fyrir fleiri þá er bara að tvöfalda eða þrefalda uppskriftina 🙂
Hráefni:
250 gr pasta (eða 1 poki af Orgran pasta – sem er glúteinlaust og vegan)
1 stórt vel þroskað avocado
1/2 bolli kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
2 hvítlauksrif, pressuð
2 msk næringarger
2 msk ólífuolía
Safi úr 1 lime
Sjávarsalt
Svartur pipar
Aðferð:
1. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum og kælið.
2. Setjið avocadoið, kasjúhneturnar, hvítlaukinn, næringargerið, ólífuolíuna og limesafann í blandara eða í matvinnsluvél og blandið öllu vel saman. Saltið og piprið eftir smekk.
3. Setjið pastað í stóra skál og hellið blöndunni yfir. Blandið saman með sleikju þannig að avocado-kasjúhnetu-dressingin blandist vel saman öllu pastanu.
4. Þið getið svo skorið niður grænmeti og borðað með en þessi réttur er alveg nógu bragðgóður og saðsamur einn og sér.
Njótið!
johanna@fagurgerdi.is