Heimatilbúið twix súkkulaði

FAGURGERÐI – MATUR // Ég verð eiginlega að vara ykkur strax við – þetta twix súkkulaði er brjálæðislega gott!

Þegar ég var að fínpússa uppskriftina (fyrir nokkrum vikum) fékk systir mín að smakka og hún hefur varla talað um annað síðan, haha.

Ég bauð síðan upp á þetta twix súkkulaði í barnaafmæli sem ég var með í dag og það var hreinlega slegist um molana!

Það besta er að fólk sem er ekki vant því að borða „hollustu nammi“ finnst þetta twix súkkulaði líka alveg frábært.

Ef þið ætlið að slá í gegn í næsta saumaklúbbs-hittingi, þá búið þið til þetta twix – svo einfalt er það 😉

Botninn
2 bollar haframjöl (ég notaði glúteinlaust frá Amisa)
1/2 bolli kókoshveiti (ég mæli með frá Biona)
1/2 bolli kókospálmasykur
1 tsk (kúfuð) lífræn vanilla (duft)
Smá sjávarsalt
1/2 bolli kókosolía, við stofuhita

Fyllingin
1 krukka möndlusmjör (170 gr)
1/3 bolli kókosolía
1/4 bolli kókossíróp
1 tsk lífræn vanilla (duft)
Smá sjávarsalt

Súkkulaðið
1/2 bolli raw kakó (eða bara hrein lífrænt kakó ef raw er ekki fáanlegt)
1 msk lucuma
1 tsk lífræn vanilla (duft)
Smá sjávarsalt
1/2 bolli kakósmjör
2 msk kókosolía
1/4 bolli kókossíróp

Aðferð:
1. Stillið bakaraofninn á 180° (með blástri).
2. Setjið haframjölið í blandara og blandið þar til haframjölið er orðið að fínu mjöli. Passið að hafa ekki of lengi – þá er hætta á að það verði olíukennt.
3. Setjið haframjölið í skál ásamt kókoshveitinu, kókospálmasykrinum, vanillunni og sjávarsaltinu og blandið saman með sleikju.
4. Hellið kókosolíunni í skálina og blandið vel saman með sleikju.
5. Setjið bökunarpappír í kassalaga form og hellið úr skálinni í formið.
6. Þjappið „deiginu“ fyrst með sleikjunni, síðan með höndunum (og setjið um leið ást í deigið). Athugið að deigið er mjög þurrt og í raun ekkert eins og deig. Það er miklu frekar eins og einhver mulningur en þannig á það líka að vera – og þess vegna er líka svo mikilvægt að þjappa vel.
7. Setjið formið inn í bakaraofninn og bakið í 12 mínútur eða þar til botninn er orðinn gullbrúnn.
8. Takið formið úr ofninum og látið kólna alveg á meðan þið búið til fyllinguna.
9. Setjið möndlusmjörið, kókosolíuna, kókossírópið, vanilluna og sjávarsaltið í blandara og blandið öllu vel saman. Ef blandarinn ykkar er með hraðastilli, stillið þá á lágan hraða.
10. Þegar botninn hefur kólnað alveg, hellið þá fyllingunni á botninn og setjið inn í frysti í 30 mínútur. Á meðan búið þið til súkkulaðið.
11. Setjið kakóið, lucuma duftið, vanilluna og sjávarsaltið í skál og blandið vel saman.
12. Bræðið kakósmjörið yfir vatnsbaði.
13. Hellið kakósmjörinu í skálina ásamt kókosolíunni og kókossírópinu. Blandið vel saman með litlum písk eða þar til allt hefur blandast mjög vel saman.
14. Takið formið úr frysti og hellið súkkulaðinu yfir. Nú þurfið þið að hafa hraðar hendur (bannað að fara á facebook á meðan eða tala í símann). Fylgist með því hvernig súkkulaðið harðnar á frosnu fyllingunni (tekur kannski mínútu, ekki mikið meira). Þegar þið sjáið að súkkulaðið er að mestu búið að harðna, takið þá twix-blönduna upp úr forminu með því að halda í bökunarpappírinn með tveimur höndum.
15. Setjið twix súkkulaðið á skurðbretti og notið beittan og stóran hníf til að skera súkkulaðið í bita. Skerið hægt en ákveðið. Þið ráðið svo hversu stóra þið viljið hafa bitana. Þið getið hafa þá jafn langa og twix súkkulaðið sem þið kaupið út í búð en mér finnst betra að hafa þá á stærð við munnbita.
16. Setjið á disk og borðið eða í box og aftur inn í frysti.

ATH. #1 Ég hef bæði prófað að nota raw og venjulegt möndlusmjör í þetta twix súkkulaði og mér finnst bæði betra. Ef eitthvað er þá er venjulega smjörið ögn betra (fyllingin verður þéttari í sér).
ATH. #2 Kókospálmasykur/síróp er betri kostur en annar sykur þar sem hann hefur sykurstuðulinn 35. Sjá nánar hér.

Njótið!

Fyrri greinDagbók lögreglu: Glórulaus hraðakstur
Næsta greinÍbúum fjölgar aftur í Ölfusinu