FAGURGERÐI – MATUR // Þetta raw súkkulaði er alveg himneskt á bragðið.
Þó að innihaldslýsingin virki kannski svolítið löng í augum sumra þá er þetta í raun mjög einföld og alls ekki tímafrek uppskrift.
Botninn
1/2 bolli pekanhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
1/2 bolli möndlur (lagðar í bleyti yfir nótt og afhýddar)
1/2 bolli kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
1/4 bolli gojber
1 bolli döðlur
1/2 bolli kókosflögur
2 msk raw kakó
1 msk kakónibbur
1 msk kókosolía
1 tsk lífræn vanilla (duft)
Smá sjávarsalt
Aðferð:
1. Skolið hneturnar vel og setjið í gröftugan blandara eða í matvinnsluvél. Kurlið vel.
2. Setjið döðlurnar í blandarann eða matvinnsluvélina og maukið. Gott er að mýkja döðlurnar með því að láta þær liggja í heitu vatni í smá stund (amk 10 mín). Mér finnst best að grófsaxa þær áður en ég set þær í blandarann til að auðvelda honum vinnuna.
3. Setjið restina af hráefninu í blandarann eða matvinnsluvélina og blandið þar til allt hráefnið hefur blandast þokkalega vel saman. Þið ráðið í raun hversu maukað þið viljið hafa þetta en mér finnst best að mauka þetta ekki of mikið.
4. Þekið kassalaga form með bökunarpappír og hellið blöndunni í formið. Fletjið vel út með sleikju þannig að blandan sé nokkuð slétt og fín. Athugið að þið getið líka sett blönduna í lítil konfkektform – svona ef þið eruð í dúllerís-stuði. Passið bara að fylla þau ekki alveg því að það verður að vera pláss fyrir súkkulaðið.
5. Setjið formið inn í frysti á meðan þið búið til súkkulaðið.
Súkkulaðið:
1/2 bolli raw kakó
1/2 bolli kakósmjör
1/2 bolli hlynsíróp
2 tsk lucuma (má sleppa)
1 tsk vanilla
Smá sjávarsalt
+ kókosflögur til að skreyta
Aðferð:
1. Bræðið kakósmjörið yfir vatnsbaði.
2. Setjið allt þurrefnið saman í skál og blandið vel saman.
3. Hellið hlynsírópinu og kakósmjörinu út í skálina og blandið vel saman með litlum písk.
4. Takið formið úr frystinum. Hellið súkkulaðinu í formið og dreifið úr því. Leyfið súkkulaðinu að storkna örlítið áður en þið myljið kókosflögurnar yfir (magn eftir smekk). Kuldinn frá botninum sér um að súkkulaðið sé ekki lengi í fljótandi formi.
5. Þegar súkkulaðið hefur storknað örlítið, takið þá beittan hníf og skerið línur í súkkulaðið (og alveg niður í botninn). Með því að vera búinn að forma línur í súkkulaðið er mun auðveldara að skera sér bita þegar súkkulaðið er alveg tilbúið. Kakósmjörið gerir það að verkum að súkkulaðið verður mjög formfast. Ef þið skerið ekki línur í súkkulaðið áður en það hefur frosið alveg í gegn er hætta á að súkkulaðið brotni allt og skilji sig frá botninum.
6. Setjið formið aftur inn í frysti í nokkrar klukkustundir (best er yfir nótt). Fáið ykkur svo bita hvenær svo sem þið eruð í stuði 🙂
ATH. #1 Með því að leggja hneturnar í bleyti losnar um ensím og þær verða auðmeltanlegri. Með öðrum orðum, það er betra fyrir kroppinn okkar ef við leggjum hnetur (og fræ) í bleyti.
Njótið!
johanna@fagurgerdi.is