Hollar smákökur

FAGURGERÐI – MATUR // Smákökur þurfa ekki að vera óhollar. Því síður er eitthvað samasemmerki milli þess að ef smákökur séu hollar þá séu þær bragðvondar.

Ég geri reglulega hafra-möndlusmjörs-bananasmákökur. Með öðrum orðum þá er grunnurinn alltaf þessi þrjú hráefni og svo set ég hitt og þetta í skálina – fer allt eftir því hvað er til og í hvernig stuði ég er.

Ég hef áður sett inn uppskrift að bananakökum sem eru ekki ósvipaðir þessum. Bragðið er þó allt annað. Það er alveg merkilegt hvað bragðið getur breyst bara við það að breyta hlutföllunum aðeins eða bæta 1-2 auka hráefnum við.

Eina sætan í þessum smákökum er sætan úr bönununum. Svo er auðvitað líka smá sæta í 70% súkkulaðinu. Þessar smákökur eru svo hollar (og góðar) að það ætti enginn að fá móral yfir gæða sér á nokkrum með morgunkaffinu 🙂

Hráefni:
3 litlir vel þroskaðir bananar
1 krukka af möndlusmjöri, með olíunni (170 gr) (ég nota alltaf frá Biona)
2 msk kókosolía, við stofuhita
1 tsk lífræn vanilla
1 tsk kanill
1/4 tsk sjávasalt
1 bolli kókosflögur
1/2 bolli pekanhnetur
100 gr 70% súkkulaði
2 bollar, rúmlega, af grófu haframjöli (ég notað glúteinlaust)

Aðferð:
1. Stillið bakaraofninn á 180° C (með blæstri) og setjið bökunarpappír á tvær ofnplötur.
2. Takið bananana úr hýðinu og setjið í stóra skál. Stappið vel með gaffli.
3. Setjið möndlusmjörið og kókosolíuna í skálina og stappið/blandið vel saman með gaffli.
4. Setjið vanilluna, kanilinn og sjávarsaltið í skálina og blandið vel saman.
5. Myljið kókosflögurnar ofan í skálina og blandið vel saman með sleikju.
6. Saxið pekanhneturnar niður og setjið í skálina. Blandið vel saman með sleikju.
7. Saxið súkkulaðið niður og setjið í skálina. Blandið vel saman með sleikju.
8. Setjið haframjölið í skálina og blandið saman með sleikju. Deigið á að vera klístrað en ekki of blautt. Það getur verið að þið þurfið að setja meira haframjöl í skálina (fer svolítið eftir því hversu gróft haframjölið er og hversu stórir bananarnir eru). Ef ykkur finnst þið þurfa að setja meira haframjöl, setjið þá bara smá í einu og reynið passið að setja ekki of mikið af því.
9. Mótið litlar kúlur úr deginu með höndunum (sirka 1 stór msk) og setjið á ofnplötunar. Þrýstið kúlunum niður þannig að þær verði flatar. Gott að móta útlínurnar með fingrunum svo að þær verði fallega hringlóttar en það er ekki nauðsynlegt.
10. Setjið inn í ofn og bakið í sirka 10-15 mínútur eða þar til smökurnar byrja að brúnast.

ATH. Hlutföllin eru ekki heillög. Þetta er ekta svona uppskrift sem maður setur dass af þessu og dass af hinu. Eins getið þið notað einhverjar aðrar hnetur en pekanhnetur. Þið getið líka notað ljóst súkkulaði eða bara sleppt því alveg. Þið getið jafnvel notað kakónibbur í staðinn fyrir súkkulaði (ég geri það oft). Ykkar er valið og eins og alltaf – verið óhrædd við að prófa ykkur áfram.

Njótið!

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinNýr útsýnispallur við Ófærufoss
Næsta greinEkkert tilefni til að ákæra prest