FAGURGERÐI – MATUR // Það er ótrúlega einfalt – og ódýrt – að búa til sína eigin möndlumjólk.
Hráefni:
1 bolli möndlur
½ tsk lífræn vanilla
3-4 bollar kalt vatn
Aðferð:
1. Látið möndlurnar liggja í bleyti yfir nótt, jafnvel tvær nætur (skiptið þá reglulega um vatn).
2. Skolið möndlurnar vel áður en þið setjið þær í blandarann. Ef þið eruð í stuði þá megið þið afhýða möndlurnar en það er ekki nauðsynlegt. Það er örlítill bragðmunur á möndlumjólkinni hvort möndlurnar eru afhýddar eða ekki, en samt ekki mikill.
3. Möndlurnar eru settar í blandara ásamt 3-4 bollum af vatni. Það fer eftir því hversu þykka eða þunna þið viljið hafa möndlumjólkina.
4. Setjið ½ tsk af vanillu saman við. Blandið vel. Það fer alveg eftir blöndurum hvers lengi þarf að blanda. Ef þið eigið Vitamixer þá þarf ekki mikið meira en 30 sekúndur, max mínútu þar til möndlurnar eru komnar í frumeindir.
5. Hellið möndlumjólkinni í gegnum síupoka (og hafið skál undir). Ég mæli með síupokunum frá Ljósinu. Þeir kosta ekki nema 1.000 kr. og þið eruð að styrkja gott málefni í leiðinni. Ég veit að það er hægt að borga í gegnum síma og fá sent í pósti. En þið getið líka notað nælonsokk (ekki grín). Aðalmálið er að nota eitthvað til að sigta hratið frá. Hratið er svo hægt að nota í bakstur eða í andlitsskrúbba (sjá uppskrift neðar), það er allavega algjör óþarfi að henda hratinu.
6. Þegar þið eruð búin að sía hratið frá getið þið annað hvort drukkið mjólkina bara beint, notað í matargerð eða það sem ég geri lang oftast – búið til möndlusjeika. Möndlumjólkin geymist í lokuðu íláti í sirka tvo daga í ísskáp (jafnvel lengur).
Uppskrift að möndlusjeik:
2 bollar frosin ber (ég nota oftast jarðarber og bláber í bland)
2 bollar möndlumjólk
¼ tsk kanill
nokkrir dropar af steviu
2 msk chiafræ (mæli með frá Navitas)
Aðferð:
1. Blandið berjunum, möndlumjólkinni, kanilnum og stevíunni vel saman í blandara. Bætið við vatni ef ykkur finnst sjeikinn vera of þykkur.
2. Þegar allt hefur blandast vel saman setjið þá 2 msk af chiafræjum saman við og hrærið saman við með skeið eða písk. Chiafræin þykkja möndlumjólkina og gera hana að hálfgerðum búðingi – mjög gott.
Uppskrift að möndlu-andlitsskrúbbi:
1 bolli möndluhrat
½ bolli kókosolía, við stofuhita
Nokkrir dropar af ilmkjarnaolíu, t.d. lavender
Aðferð:
Öllu blandað saman. Mildur og góður skrúbbur sem hægt er að nota tvisvar á dag.
Athugið að þið þurfið bara lítið magn í einu þegar þið skrúbbið andlitið.
Njótið!
johanna@fagurgerdi.is