Kasjúhnetuostur

FAGURGERÐI – MATUR // Þennan kasjúhnetuost geri ég í hverri viku og nota í alls konar rétti.

Þetta er samt kannski meira eins og þykk sósa frekar en ostur. Það fer líka eftir vökvamagninu hversu þykkur „osturinn“ er. Stundum hef ég hann viljandi extra þunnan því að ég veit að ég er að fara að nota hann meira á salöt og þess háttar rétti. En stundum vil ég líka hafa hann þykkan, sérstaklega ef ég ætla að nota hann á ofnbakaða rétti.

Kasjúhnetuosturinn er t.d. góður með:

Fylltum paprikum
Fylltum eggaldin
Kúrbítspizzu
Mexíkósúpu
Kartöfluvöfflum

Það er líka gott að skera niður grænmeti og nota kasjúhnetuostinn sem ídýfu. Möguleikarnir eru endalausir.

Hráefni:

  • 4 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 4-6 klst (best yfir nótt)
  • 2 msk næringarger
  • 2-4 hvítlauksrif, pressuð (fjöldi fer eftir stærð og smekk)
  • safi úr 2 stk lime
  • 1 tsk sjávarsalt
  • Nokkrar „hristur“ af cayenne pipar (alls ekki of mikið)
  • Sirka 3 og 1/2 dl vatn (meira eða minna eftir því hvað þið viljið hafa „ostinn“ þykkan)

Aðferð:

  1. Allt sett í blandara og blandað þar til blandan er silkimjúk og kekkjalaus.

Geymist í lokuðu íláti og í kæli í amk viku.

ATH. #1 Ég mæli eindregið með því að nota lífrænar kasjúhnetur í þennan ost/sósu, þær eru svo langt um bragðbetri. Ég mæli með kasjúhnetunum frá Sólgæti.
ATH. #2 Næringarger – sem á ekkert skylt við venjulegt brauðger – er alveg ómissandi í ostinn/sósuna. Það er sérlega næringarríkt (þaðan er nafnið komið), inniheldur mikið magn af B vítamínum og gefur góðan osta/hnetukeim. Þið finnið næringarger í heilsudeild stórmarkaðanna.
ATH. #3 Þið getið líka notað ólífuolíu á móti vatninu. Þá minnkið þið hlutfallið af vatninu á móti (setjið t.d. 1/2 dl af ólífuolíu, 3 dl af vatni). Ólífuolían gefur mjög gott bragð en athugið að þá er kasjúhnetuosturinn orðinn töluvert hitaeiningaríkari 🙂

Njótið!


Fyllt eggaldin

Fyrri greinListasmíði á Litla-Hrauni
Næsta greinHamar valtaði yfir botnliðið