FAGURGERÐI – MATUR // Þessi pizza er í miklu uppáhaldi hjá mér.
Það er ótrúlega einfalt að búa til kúrbítspizzu og þegar maður hefur einu sinni búið hana til þá finnst manni eiginlega ótrúlegt að maður hafi ekki alltaf búið hana til.
Þessi pizza er líka létt í maga en samt svo saðsöm (sérstaklega ef maður notar kasjúhnetuostinn). Ilmurinn sem kemur þegar maður er að baka botninn er líka alveg unaðslegur. Sum sé, ilmandi góður matur – eins og allur matur ætti að sjálfsögðu að vera 🙂
Hráefni:
2 bollar kúrbítur (það er sirka 1 meðalstór kúrbítur)
1 bolli möndlumjöl
1/4 bolli næringarger
1 msk chiafræ, möluð
1 tsk oregano
1 tsk majoran
1/2 tsk hvítlauksduft
Smá sjávarsalt
Smá svartur pipar
Smá cayanne pipar (passa að setja ekki of mikið)
1 msk kókosolía, við stofuhita
Aðferð:
1. Stillið bakaraofninn á 180° (með blæstri).
2. Flysjið krúbítinn og skerið endana af. Notið rifjárn og rífið hann niður. Notið spírupoka, t.d. frá Ljósinu, til að kreista allan vökva af kúrbítnum. Það er mikilvægt að kreista vökvann vel af til að botninn heppnist sem best (ég kreisti og kreisti og kreisti svo aðeins meira).
3. Setjið kúrbítinn í skál ásamt restinni af hráefninu. Notið sleikju og blandið öllu vel saman.
4. Setjið bökunarpappír á ofnplötu. Setjið degið því næst á ofnplötuna og fletjið út með fingrunum (munið að setja ást í degið á meðan þið fletjið það út!). Athugið að degið er frekar klístrað en þannig á það að vera. Gott er að miða við að pizzubotninn sé svipaður að stærð og 12″ pizza.
5. Þegar þið eruð orðin sátt við lögunina á pizzubotninum, setjið hann þá inn í ofn og bakið í sirka 20 mínútur eða þar til hann byrjar að brúnast.
6. Þegar pizzubotninn er búinn að vera í ofninum í 20 mínútur, takið hann þá út og setjið á hann sósu, álegg og ost (og svo er rosa gott að setja smá svartan pipar yfir ostinn). Ég mæli með þessari sósu hér og svo kasjúhnetuostinum góða. Á þessa pizzu sett ég spínat, rauða papriku, rauðlauk, hvítlauk, sveppi og kirsjuberjatómata.
7. Setjið pizzuna aftur inn í ofn og bakið í sirka 15 mínútur.
8. Takið pizzuna út og leyfið henni að kólna aðeins áður en þið borðið. Munið svo að njóta matarins og þakka fyrir hann og blessa 🙂
Njótið!
ATH. #1 Þess má geta að í bókinni Super Immunity eftir Joel Fuhrman er sérstaklega mælt með því að maður borði reglulega lauk og sveppi. Meira að segja þessir hvítu „venjulegu“ sveppir eru gríðarlega góðir fyrir ónæmiskerfið okkar. Maður þarf ekki alltaf að kaupa framandi og erlendar jurtir til að það geri líkamanum gagn. „Venjulegt“ grænmeti og ávextir er stútfullt af alls konar góðri næringu fyrir okkur en í allri þessari ofurfæðu-umræðu gleymist það oft. Svo er alltaf best að reyna nýta það sem er næst manni – hvort það sem það er grænmetið hjá bóndandum á næsta bæ eða íslensku jurtirnar út í móa. Þannig hugsum við líka vel um umhverfið okkar.
ATH. #2 Í stað þess að kaupa tilbúið möndlumjöl eða tilbúin möluð chiafræ, þá getið þið sett 1 bolla af möndlum í blandara og malað þær þannig niður í mjöl. Eins með chiafræin. Passið bara að hafa blandarann ekki of lengi í gangi – þá fer allt í klessu.
ATH. #3 Þetta er frekar lítil uppskrift, passar kannski fyrir tvo fullorðna – max. Þannig að ef þið ætlið að elda fyrir fjölskylduna þá mæli ég með að tvöfalda uppskriftina (eða þrefalda – fer eftir því hvað þið eigið stóra fjölskyldu).
ATH. #4 Næringargerið frá KAL er í uppáhaldi hjá mér. Ef þið eruð ókunn næringargeri þá getið þið lesið ykkur til um það hér.
ATH. #5 Það er mjög mikilvægt að nota mulin chiafræ í þessa uppskrift. Muldu chiafræin virka eins og lím og halda botninum saman. Ef þið sleppið þeim þá er hætta á að botninn molni allur niður.