FAGURGERÐI – HEIMILIÐ // Margir hafa orðið varir við þá tísku núna undafarið að hengja diska upp á vegg. Mér persónulega finnst það ótrúlega falleg, einföld og ódýr lausn.
Ég man eftir fallegu diskunum heima hjá Hilmu ömmu sem voru í þráðbeinni röð fyrir ofan dyrakarminn á stofunni. Já, tískan fer greinilega í hringi. Meðal vinsælustu vara antiksala um þessar mundir eru Bing & Gröndal jólaplattarnir. Flestir kosta þeir í kringum 2.700 kr. en sjaldgæfustu plattarnir seljast á 800.000 til 900.000 kr. (t.d. Dómkirkjuplatinn frá 1928).
Fínar frúr hafa sést á hinum ýmsum nytjamörkuðum í leit af fallegum diskum til að hengja upp. En það er algjör óþarfi að hafa þá alla eins, og þeir þurfa alls ekki að vera frá Bing & Gröndal. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan sem kemur frá Randý vinkonu minni þá blandar hún saman allskonar diskum, bæði pappadiskum, erfðagóssi úr postulíni og nýtísku melamin diskum.
Okkar jólaplattar koma frá ömmu og afa Kára en þau fengu sendan einn á ári frá frændfólki í Danmörku. Þeir voru búnir að safna ryki inn í geymslu hjá tengdó um þó nokkurn tíma en hanga núna upp á vegg hjá okkur. Því miður enginn frá 1928.