Lóukaka (hnetulaus)

Þessi kaka hefur slegið gegn í öllum afmælum hjá stórfjölskyldunni. Ungir sem aldnir elska þessa köku enda er hún einstaklega bragðgóð. Fyrir utan það að smakkast undursamlega þá er hún líka svo falleg. Og eins og allir vita þá bragðast fallegur matur alltaf aðeins betur.

Stóri kosturinn við hana er að hún er án helstu ofnæmisvalda svo að hún hentar breiðum hópi fólks.

Kakan heitir Lóuakaka eftir Árdísi Lóu frænku minni sem er með ofnæmi fyrir ákveðnum tegundum af hnetum. Ég ákvað að hafa þessa köku lausa við allar hnetur svo að allir með hnetuofnæmi gætu borðað hana. Ég vona að þið verðið jafn ánægð með hana og þeir sem hafa smakkað hana hjá mér 🙂

Botninn:

  • 3 bollar kókosmjöl
  • 10 msk akasíuhunang (eða önnur sæta)
  • 6 msk kókosolía, við stofuhita
  • 1 tsk lífrænir vanilludropar
  • Smá sjávarsalt

Aðferð:

  1. Öllu skellt í matvinnsluvél og blandað vel saman eða þar til kókosmjölið er farið að loða vel saman.
  2. Klæðið hringlaga kökumót (með lausum botni) með bökunarpappír og hellið deiginu ofan í mótið. Þjappið vel niður með skeið eða bara höndunum.
  3. Leggið formið til hliðar á meðan þið búið til kremið.

Kókósdöðlukrem

  • 1 ½ bolli döðlur
  • 1 bolli kókosmjólk
  • 1 tsk lífrænir vanilludropar
  • Smá sjávarsalt

Aðferð:

  1. Allt sett í blandara og blandað vel saman eða þar til kremið er orðið silkimjúkt og laust við alla kekki. Ef þið eruð með hraðastilli á blandaranum þá er gott að byrja á lægsta hraða og auka hraðann svo smá saman.
  2. Hellið kreminu yfir botninn og dreifið vel úr með sleikju.
  3. Skreytið með frosnum berjum (t.d. bláberjum og hindberjum) og muldum kókosflögum. Gott er að þrýsta létt á berin svo að þau fari aðeins ofan í kremið en sitji ekki bara ofan á því.
  4. Setjið formið inn í frysti og geymið yfir nótt.
  5. Kakan þarf að fá að standa í sirka korter á borðinu áður en hún er skorin.

Fyrri grein„Börðumst af hörku fyrir sigrinum“
Næsta greinSóknartrjám plantað í Skálholti