Meiriháttar góð kasjúhnetusósa

FAGURGERÐI – MATUR // Mig langaði helst að kalla þessa sósu „heimsins besta kasjúhnetusósu“ en það er líklega of djúpt í árina tekið.

En þessi sósa fer langleiðina upp heimslistann yfir bestu kasjúhnetusósurnar.

Ég veit að mörgum langar að borða meira af salati en fá mjög fljótt leið á bragðinu – eða þá enda á að setja helling af einhverri mæjonessósu sem er allt annað en holl. Og sem núllar eiginlega út góðu áhrifin af salatinu. Þá er gott að geta gripið í svona kasjúhnetusósu sem inniheldur eingöngu nærandi og heilnæm hráefni – eitthvað sem gerir líkamanum gott en ekki grikk.

Sósuna nota ég yfir grænmeti bæði ferskt og eldað. Oftast geri ég blöndu af báðu – bæði ferskt salat og svo kannski bakaðar sætar kartöflur og annað með á diskinum. Og svo kasjúhnetusósuna yfir allt. Unaðslega gott!

Hráefni:

  • 4 dl kasjúhnetur (lagðar í bleyti í 4-6 klukkustundir)
  • 4 msk næringarger
  • Safi úr 2 límonum
  • 1 tsk, rúmlega, sjávarsalt
  • 3-4 stk hvítlauksrif (fer eftir stærð)
  • 2 tsk sriracha sósa (meira ef þið viljið hafa sósuna sterkari)
  • 3 dl vatn (eða meira ef þið viljið hafa sósuna þynnri)

Aðferð:

  1. Hellið vatninu af kasjúhnetunum og skolið vel. Setjið þær annað hvort í blandarann eða í ílátið sem fylgir töfrasprotanum. Ég notaði töfrasprotann, enda fljótlegt og þægilegt. En blandarinn ætti líka að vinna verkið vel og auðveldlega.
  2. Pressið hvítlauksrifin og kreistið safann úr límonunum og setjið í ílátið/blandarann ásamt restinni af hráefnunum. Blandið vel saman þannig að sósan verði silkimjúk.
  3. Hellið sósunni í stóra glerkrukku (t.d. gamla kókosolíukrukku sem er búið að þrífa) eða annað ílát með loki. Sósan geymist í sirka viku í kæli (en mér þykir líklegt að þið verðið löngu búin með hana fyrir þann tíma).
Njótið!

ATH. #1 Ég notaði næringarger frá KAL, finnst það bragðbesta næringargerið. Þið finnið það t.d. í Heilsuhúsinu og í Nettó. En þið getið líka notað næringarger frá öðru merki sem ykkur finnst gott. Að mínu mati er næringarger nauðsynlegt fyrir þessa uppskrift. Það gefur sósunni svona hnetuostabragð. Auk þess er það mjög ríkt af b vítamínum. Já og best að taka það fram að þá er það algjörlega óskylt geri sem er notað við bakstur.

ATH. #2 Sriracha sósan er mjög sterk svo að passið ykkur að setja ekki of mikið af henni. Þetta er eins og með cayenne piparinn – ef þið setjið of mikið þá verður maturinn algjörlega óætur. Þið ættuð að gera fundið sriracha sósu í öllum matvöruverslunum (í sósudeildinni).

ATH. #3 Þó að ég noti þessa sósu eingöngu á salat þá er ég handviss um að sósan passi með flest öllum mat. Fyrir þá sem eru vanir að fá sér kaldar sósur með kjöti þá ætti þessi sósa að vera alveg fullkomin fyrir það. Ég mæli þó allan daginn miklu frekar með því að fólk borði salat frekar kjöt 🙂

Fyrri greinGunnar áfram formaður SASS
Næsta greinKatrín Ýr og Kristrún áfram með Selfossi