FAGURGERÐI – MATUR // Þessi grænmetisréttur er svo góður að það er virkilega erfitt að borða ekki yfir sig.
Þetta er réttur sem ætti að slá í gegn hjá bæði grænmetisætum og kjötætum sem álíta grænmeti bara vera eitthvað „meðlæti“ 🙂
Rétturinn er einstaklega saðsamur, bragðgóður og svo er hann tiltölulega einfaldur í framkvæmd. Hann geymist líka vel í nokkra daga í ísskápnum (í lokuðu íláti) og er jafnvel betri daginn eftir.
Það var eiginlega alveg óvart að þessi réttur heppnaðist svona vel. Ég var „bara að gera eitthvað“ eins og svo oft áður – með enga uppskrift að fyrirmynd eða neitt þannig. Smakkaði bara til og bætti við kryddum eins og mér fannst þurfa og passa.
Svo þegar rétturinn kom úr ofninum var hann svo meiriháttar góður á bragðið að ég flýtti mér að skrifa niður hráefni og hlutföll – svona áður en ég myndi gleyma því. Ég hef nefnilega lent í því oftar en einu sinni að gera einhvern rétt sem heppnaðist einstaklega vel en mundi ómögulega hvað ég gerði eða hver hlutföllin voru.
Hráefni:
- 1 stór sæt kartafla
- 1 kúrbítur
- 1 rauð paprika
- 1 rauðlaukur
- 2 hvítlauksrif
- 200 gr. kjúklingabaunir (eldaðar)
- 300 ml maukaðir tómatar
- 100 ml kókosmjólk (full fat)
- 100 ml vatn
- 2 msk tómatpúrra
- 4 msk næringarger (ég mæli með frá KAL, fæst t.d. í Nettó)
- 2 tsk oreganó
- 2 tsk basilika
- 1 tsk rósmarín
- 1 tsk timjan
- 1 ½ tsk sjávarsalt
- ½ tsk steinselja
- Vel af svörtum pipar
+ vegan ostur (má sleppa)
Aðferð:
- Stillið bakaraofinn á 200°C (með blæstri).
- Flysjið sætu kartöfluna og kúrbítinn og saxið niður í litla teninga. Setjið í stóra skál.
- Saxið paprikuna og laukinn frekar smátt niður og pressið hvítlauksrifin. Setjið í skálina með sætu kartöflunni og kúrbítnum.
- Setjið restina af hráefnunum í skálina og blandið vel saman.
- Setjið í stórt eldfast mót og dreifið vel úr með sleikju. Rífið niður vegan ostinn og setjið yfir. Þið getið líka notað venjulegan rifinn ost (t.d. mozzarella ost) eða bara sleppt ostinum alveg.
- Setjið inn í ofn og bakið í sirka 35 mínútur.
Njótið!