Meistaramánuður

FAGURGERÐI – HEILSA // Meistarmánuður fer fram ár hvert í október, þátttakendur skora sjálfa sig á hólm og setja sér markmið.

Markmiðin geta verið stór og smá, breytt mataræði, meiri hreyfing, nýjar tómstundir og í raun hvað sem er. Þetta er tilvalin leið til þess að prófa eitthvað nýtt eða gera eitthvað sem þig hefur alltaf langað til þess að prófa.

Ég er mjög oft að setja mér markmið og geri það miklu oftar en í október ár hvert en ég hef sl. 2 ár sett mér heilsutengd markmið þennan mánuð.
Þetta árið ætlaði ég sleppa öllu nammiáti…. það gekk í tvo daga. Ég hef engan sérstakan viljastyrk þegar kemur að mat en reyni samt sem áður alltaf að tileinka mér hollt fæði fram yfir óhollustu. Mitt mottó er samt að allt er best í hófi.
Þegar þetta markmið var farið út um gluggann þá sá ég á netvafri mínu nokkrar greinar um að það væri hrikalega hollt og gott að drekka sítrónuvatn á morgnana. Einnig fann ég annað heilsuráð um þurrskrúbbun. Ég ákvað að það gæti nú varla verið of erfitt að prófa þetta nokkra daga í röð. Þar sem ég er mjög lítil morgun-manneskja þá sá ég að þetta væri ágætis áskorun fyrir mig að setja inn 2 nýjar rútínur í morgunsárið.
Ég deili nú venjulega ekki persónulegum heilsuráðum þar sem ég er engin sérfræðingur á því sviði en ég bara verð að deila þessari nýju uppgötvun minni þar sem mér líður svo hrikalega vel eftir að ég bætti þessum trixum inní mína daglegu rútínu. Það er eins og líkaminn fái vítamínsprautu við þurrskrúbbunina og svo er greinilegt að sítrónuvatnið hefur að geyma mörg góð vítamín sem eru að gera eitthvað gott fyrir líkamann minn. Það er allavega þess virði að vakna 5 mín fyrr því dagurinn verður mun betri fyrir vikið.
Ég þurrskrúbba mig alla með miðlungs grófum hönskum sem fást í flestum apótekum og Tiger. Einnig er hægt að nota líkams skrúbb eða bursta. Maður er bara svo snöggur þegar maður getur notað báðar hendurnar þannig að það var að virka fyrir mig. Athugið að þú og burstinn sem þú notar séuð þurr eins og orðið þurrskrúbbun gefur til kynna. Það er t.d. hægt að gera þetta í sturtunni áður en þið kveikið á henni. Þegar ég er búin að skrúbba mig þá skelli ég mér undir sturtuna í augnablik, stilli svo á kalt-volgt í restina og það vekur upp allar frumur í líkamanum.
Hér má sjá myndband um hvernig þurrskrúbbun virkar.
Sítrónu vatnið drekk ég oftast volgt en þegar ég er að flýta mér þá fæ ég mér bara kalt vatn. Ég kreisti hálfa sítrónu í glas og fylli upp með vatni, leyfi alltaf sítónunni að fara með í glasið til að fá notið allra efnanna úr henni.

Alessi sítrónupressan fæst í Motivo.
Ég vona að þessi heilsuráð nýtist einhverjum sem langar til að líða betur, því aðalmálið er að líða vel og vera hamingjusamur í eigin skinni.
Fyrri greinBikarhelgi í körfunni
Næsta greinHvergerðingur ráðinn ritstjóri Pressunnar