FAGURGERÐI – MATUR// Þessi súpa er í miklu uppáhaldi hjá mér.
Í raun er þessi súpa uppáhalds súpan mín, enda bragðmikil, holl og alveg svakalega góð.
Hráefni:
- 1 lítill laukur
- 4 hvítlauksrif
- 1 rauður chillipipar
- 2 msk kókosolía
- 400 ml maukaðir tómatar í flösku
- 800 ml vatn (eða meira ef þið viljið hafa súpuna þynnri)
- 2 msk tómatpúrra
- 2 msk grænmetiskraftur
- 3 stk tómatar
- 1 tsk cumin
- 1 tsk sjávarsalt
- smá svartur pipar
- 1 dós (400 gr) af svörtum baunum
- 1 msk akasíuhunang
- safi úr hálfri lime
- 2 msk ferskur kóríander
- Nachos (ég mæli með þessu snakki HÉR)
- Kasjúhnetuostur (sjá uppskrift HÉR)
Aðferð:
- Saxið laukinn smátt niður og setjið á disk.
- Pressið hvítlauskrifin niður og setjið á diskinn með lauknum.
- Fræhreinsið chillipiparinn og saxið hann smá niður. Setjið á diskinn með lauknum.
- Setjið kókosolíuna í stóran pott og stillið hitann á hæsta straum.
- Setjið fyrst laukinn og vorlaukinn í pottinn og steikið hann í smá stund. Setjið síðan hvítlaukinn og chillipiparinn í pottinn og steikið í nokkrar mínútur eða þar til laukurinn og chillipiparinn er farinn að mýkjast. Ef vantar meiri vökva setjið þá smá vatn út í pottinn. Óþarfi að setja meiri olíu.
- Hellið maukuðu tómötunum í pottinn og lækkið undir.
- Hellið vatninu út í pottinn. Mér finnst best að fylla flöskuna sem maukuðu tómatarnir voru í. Þannig hreinsar maður vel úr flöskunni og ekkkert fer til spillis. Athugið samt að flaskan er bara rúm 400 ml svo að þið þurfið að fylla hana 2svar til að ná 800 ml.
- Saxið tómatana niður og setjið í pottinn.
- Hellið svörtu baununum út í pottinn.
- Setjið tómatpúrruna, grænmetiskraftinn, cumin og sjávarsaltið út í. Setjið smá svartan pipar og hrærið vel.
- Látið súpuna malla í 20 mínútur.
- Þegar súpan er búin að malla í 20 mínútur, smakkið þá súpuna og ath. hvort ykkur finnist þurfa að krydda meira (setja t.d. meiri svartan pipar). Takið því næst pottinn af hellunni.
- Saxið kóríanderinn smátt niður og setjið sirka 2 msk í pottinn ásamt lime-safanum og akasíuhunanginu. Hrærið vel saman.
- Skammtið súpunni á disk, myljið nachos yfir og setjið kasjúhnetuost yfir (1-2 msk er alveg passlegt).
Njótið!