FAGURGERÐI – HANNYRÐIR // Við Selfyssingar og nærsveitungar kunnum svo sannarlega að tileinka okkur öll þau trend og æði sem eru í gangi hverju sinni.
Nú síðustu árin hefur uglu-æðið verið mjög áberandi, og ekki bara hér heldur útum allan heim. Uglur í öllum stærðum, gerðum og litum fyrirfinnast á flíkum, veggjum og bara alls staðar. Enda eru þær algjör krútt.
Nú er nýtt æði að ganga í garð, rebba-æðið. Ég fagna því mjög því ég elska rebba! Það er líka mjög skemmtilegt að prjóna þá og mjög auðvelt að setja í mynstur. Hef fundið nokkra sæta refi á Pinterest og pinnaði þá hjá mér á Hekl og Prjón töfluna mína, hvet ykkur til að fylgjast með.
Ég útbjó Mikka Ref vettlinga alveg sérstaklega fyrir Fagurgerði. Ótrúlega góðir vettlingar handa litlum höndum, henta sérstaklega vel fyrir leikskólann. Grunnhugmyndin að uppbyggingu vettlinganna er úr gamalli klassískri prjónakennslubók og hafa þeir reynst afar vel. Hlýtt klukkuprjónsstroffið sem nær hátt gerir gæfumuninn. Dóttir mín hefur fengið tvö svona vettlingapör frá langömmu sinni og þetta eru bara bestu vettlingarnir.
Ég notaði prjóna númer 2,5 og léttlopa frá Ístex, grár litur nr. 0056 og mynsturlitur nr. 9427 (ryðbrúnn) og smá spotta af svörtum eða dökkum lit. Fitjaði laust upp á 30 lykkjur og prjónaði sirka 6 cm klukkuprjónsstroff fram og til baka. Það er reyndar hægt að prjóna það í hring líka en aðferðinar eru ekki eins. Hér má sjá myndband sem útskýrir vel klukkuprjón fram og til baka:
Og hér er útskýrt (á ensku) hvernig það er prjónað í hring.
Eftir klukkuprjónsstroffið skipti ég svo um prjóna, minnkaði niður í sokkaprjóna númer 2 og prjónaði slétt og brugðið stroff sirka 2-3 cm. Til þess að það komi í réttu flæði við klukkuprjónið þarf að prjóna saman þær lykkjur sem í klukkuprjóninu voru prjónaðar 2 saman, og mynda „slétta“ lykkju en gera brugðið ofan í þær lykkjur sem hefði átt að taka óprjónaðar í klukkuprjóninu. Þá ættu að vera 20 lykkjur á prjónunum.
Eftir stroffið er prjónað slétt. Í fyrstu umferðinni er bætt við 10 lykkjum jafnt yfir umferðina (auka við í annarri hverri lykkju, þá verða 30 lykkjur á prjónunum). Svo er prjónað mynstur að eigin vali. Læt fylgja með Mikka Ref mynstrið sem teiknaði ég upp á rúðustrikað blað, mjög fagmannlegt allt saman! 😉
Úrtaka fyrstu tvo prjóna: 1. lykkjan tekin yfir óprjónuð, 2. lykkjan prjónuð. 1. lykkju vippað yfir 2. lykkju. Prjónað þar til 2 lykkjur eru eftir, þær tvær prjónaðar slétt saman. Endurtekið eins á seinni tveimur prjónunum.
Athugið að þegar seinni vettlingurinn er prjónaður þarf að gera ráð fyrir þumli hinum megin, þ.e.a.s. þegar 6 lykkjur eru eftir af umferðinni eru 5 lykkjur prjónaðar á aukaband, þær settar svo aftur á fyrri prjóninn og prjónað yfir eins og mynstrið segir.
Ég prjónaði þumlanna í mynsturlitnum. Þeir eru ekki hafðir of litlir né stórir. Ég prjónaði 8 umferðir og tók svo út eins og lýst er hér að ofan.
Þá ættið lítið annað að vera eftir en að ganga frá endum og sauma saman klukkuprjónsstroffið ef það var prjónað fram og til baka.
.. og jú – njóta þess að gefa litlum dásemdum hlýju og góðu vettlingana ykkar <3
steinunnbirna@fagurgerdi.is