FAGURGERÐI – MATUR // Þetta hráfæðisnammi gerði ég fyrir mömmuklúbbinn minn fyrir skömmu.
Það er skemmst frá því að segja að kúlurnar fengu fullt hús stiga 🙂
Hráefni:
- 1 bolli möndlur
- 4 msk kókosmjöl
- ½ tsk ekta vanilla (duft en ekki dropar)
- Smá sjávarsalt
- 1 bolli döðlur
- ¼ bolli hlynsíróp
- 2 msk kókosolía
Aðferð:
- Setjið möndlurnar í matvinnsluvél (eða blandara) og kurlið niður þannig að þær verði að fíngerðu mjöli. Setjið í skál og leggið til hliðar.
- Setjið kókosmjölið, vanilluna og sjávarsaltið í skálina og blandið vel saman með sleikju eða skeið.
- Setjið döðlurnar í matvinnsluvél (eða saxið mjög fínt niður ef þið eigið ekki matvinnsluvél) og maukið. Þegar döðlurnar eru orðnar að ljósbrúnu mauki þá er maukið tilbúið.
- Setjið döðlumaukið í skálina með þurrefnunum og blandið vel saman, fyrst með sleikju eða skeið, síðan með höndunum. Munið að setja helling af ást um leið í deigið 🙂
- Þegar þurrefnin og döðlumaukið hafa að blandast nokkuð vel saman eða þannig að deigið er eins og „mulningur“, hellið þá hlynsírópinu og kókosolíunni yfir. Þetta tvennt virkar eins og „lím“ fyrir kúlurnar.
- Blandið vel saman með sleikju eða skeið.
- Setjið bökunarpappír á bakka.
- Mótið litlar kúlur með höndunum og setjið á bakkann.
- Setjið bakkann inn í frysti. Eftir nokkrar klst ættu kúlurnar að verða orðnar nógu þéttar í sér til að það sé hægt að borða þær auðveldlega.
Njótið!