Ný perla á Suðurlandi

FAGURGERÐI – HÖNNUN // Um síðustu helgi var opnuð ein fallegasta verslun landsins, Kron Kron Fákaseli.

Fákasel er staðsett á Ingólfshvoli í Ölfusi, milli Selfoss og Hveragerðis. Það tekur fimm mínútur að keyra frá Selfossi.

Búðin er ótrúlega falleg og er greinilegt að það hefur verið nostrað við hvern hlut. Sama hvort það eru innréttingar, vöruúrval eða uppröðun. Innréttingarnar eru hannaðar af Elínu Þorsteinsdóttur innanhúsarkitekt en einnig eru þarna dásamleg antikhúsgögn frá Danmörku.

Vöruúrvalið er mjög fjölbreytt og er íslensk hönnun í aðalhlutverki. Kron Kron hefur fyrir löngu skapað sér sess meðal þekktustu hönnunar Íslands en vörurnar eru hannaðar af hjónunum Hugrúnu og Magna. Þau eru þekkt fyrir fallega skóhönnun sína, litagleði, frumleg mynstur og mikil gæði. Ein nýjung sem sem fæst hjá þeim núna eru yndislega fallegir prjónasokkar í flottum litum sem eru algjörlega að slá í gegn.

Kron Kron Fákaseli leggur mikið upp úr samstarfi við hönnuði á svæðinu í kringum Fákasel og er ég viss um að við eigum eftir að sjá það samstarf vaxa og dafna í framtíðinni. En ýmsar nýjungar eru á leiðinni tengt þessu samstarfi eins og ilmkerti, krem, vörur skornar út úr tré o.fl. Verðlagið er fjölbreytt þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Ég mæli eindregið með því að fólk leggi leið sína í Kron Kron Fákaseli fái sér latte og heimabakað góðgæti á kaffihúsinu eða súpu og brauð á veitingastaðnum, rölti um verslunina og skoði þessa frábæru hönnun.

Fyrri greinHamar ekki með í byrjun
Næsta greinGreiðir niður skuldir við veitustofnanir