Öðruvísi kartöflusalat

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi réttur er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana. Kjötætan maðurinn minn myndi segja að þetta væri „fínasta meðlæti“ en þessi réttur er þó ákaflega saðsamur og að mínu mati getur hann staðið einn og sér sem aðalréttur.

Þessi réttur varð til eins og svo margir aðrir réttir – bara alveg óvart. Mig langaði í eitthvað sem tæki ekki langan tíma að búa til, innihéldi ekki of mörg hráefni og væri bragðgott. Og úr varð þessi réttur.

Ég hef oftast gert þennan rétt í bakaraofninum en þar sem hann er búinn að vera bilaður síðan á páskadag og í viðgerð síðan á í þriðja í páskum, þá verður helluborðið að duga. Bakaður matur er nær alltaf hollari en steiktur matur og að mínu mati líka bragðbetri. Hvort sem þið notið bakaraofninn eða helluborðið, passið bara að elda grænmetið ekki of lengi eða of mikið. Það á alls ekki að maukelda það. Þegar grænmetið er farið að mýkjast má segja að það sé nægilega eldað.

Fyrst þurfið þið að búa til kasjúhnetuostinn. Ég bý hann til í hverri viku og á hann alltaf til inn í ísskáp þar sem nota ég hann mikið í alls konar rétti. Hann er svo góður að það hæglega hægt að borða hann eintóman. Uppskriftin er fengin af Heilsukokkur.is sem er algjör snilldarsíða ef þið hafið ekki uppgötvað hana nú þegar.

Kasjúhnetuostur
2 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti yfir nótt
½ dl ólífuolía
½ dl vatn
2 hvítlauksrif, pressuð
2 msk næringarger
safi úr 1 lime
smá sjávarsalt
smá cayanne pipar

Allt sett í blandara og blandað þar til allt er silkimjúkt. Passið að setja ekki of mikið af cayenne piparanum. Setjið frekar minna en meira því að hann er mjög bragðsterkur. Ég tvöfalda venjulega þessa uppskrift en kasjúhnetuosturinn geymist vel lokuðu íláti inn í ísskáp í allavega viku. Athugið að það er mjög mikill bragðmunur á lífrænum og ólífrænum kasjúhnetum – ótrúlegt en satt. Ég mæli eindregið með lífrænum kasjúhnetum.

Þá er það sjálfur rétturinn.

Hráefni:
2 msk kókosolía
1 stk sæt kartafla
4 stk meðalstórar gulrætur
1 stk rauð paprika
1 bolli kjúklingabaunir (eldaðar)
4 msk kasjúhnetuostur
cayenne pipar
eðal-hvítlaukssalt (ég nota alltaf frá Pottagöldrum)
paprikukrydd

Aðferð:
1. Flysjið sætu kartöfluna og skerið í litla teninga. Setjið í stóra skál.
2. Flysjið gulræturnar (ef þið notið ekki lífrænar). Skerið fyrst langsum, í nokkra langa strimla og saxið svo niður. Setjið í skál með kartöflunum.
3. Fræhreinsið paprikuna, fjarlægið stöngulinn og saxið paprikuna smátt niður og setjið í skálina með hinu grænmetinu.
4. Setjið kókosolínua í pottinn og stillið á hæsta straum. Þegar potturinn er orðinn heitur, hellið þá grænmetinu út í og steikið. Ef ykkur finnst vanta meiri vökva, hellið þá smá vatni út í pottinn. Það er algjör óþarfi að setja meiri olíu. Þegar grænmetið er byrjað að steikjast, lækkið þá undir og hafið á meðalhita.
5. Kryddið með hvítlaukssaltinu, cayenne piparnum og papriku kryddinu. Eins og með kasjúhnetuostinn, þá þurfið þið að passa að setja ekki of mikinn cayenne pipar. Less er stundum more.
6. Þegar grænmetið er farið að mýkjast, en kannski ekki alveg tilbúið, hellið þá kjúklingabaununum út í. Ef þið notið kjúlingabaunir úr krukku/dós þá þurfið þið að skola baunirnar vel áður. Enginn vökvi á að fylgja með þegar þær eru settar í pottinn. Ég mæli samt eindregið með að kaupa þurrar baunir, leggja í bleyti og sjóða sjálfur þar sem það er ótrúlega lítið mál.
Þar sem baunirnar eru eldaðar þá þarf bara aðeins að hita þær í pottinum. Sem sagt, þurfa ekki langan eldunartíma.
7. Þegar grænmetið er orðið mjúkt og baunirnar heitar, takið þá pottinn af hellunni. Setjið 4 msk af kasjúhnetuostinum í pottinn og blandið vel saman með sleif eða sleikju. Þá er rétturinn tilbúinn.

Njótið!

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinUnglingar í Ölfusi stíga á svið
Næsta greinFjöldi Selfyssinga valinn í landslið