FAGURGERÐI – MATUR // Þeir sem fíla dökkt súkkulaði og hnetusmjör ættu að fíla þessa köku.
Botninn:
2 bollar möndlur (lagðar í bleyti yfir nótt) (ég afhýði yfirleitt alltaf allar möndlur sem ég nota í raw rétti)
1 bolli döðlur (lagðar í bleyti í nokkrar klst eða yfir nótt)
6 msk raw kakó (eða bara lífrænt ef raw er ekki fáanlegt)
1 tsk lífræn vanilla
1/4 tsk sjávarsalt
Blandið öllu vel saman í matvinnsluvél, með töfrasprota eða í blandara. Setjið í hringlaga mót og inn í frysti á meðan fyllingin er búin til.
Fyllingin:
1 bolli döðlur (lagðar í bleyti í nokkrar klst eða yfir nótt)
1/2 bolli kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
6 msk raw kakó (eða bara lífrænt ef raw er ekki fáanlegt)
4 msk lífrænt hnetusmjör
1 tsk lífræn vanilla
1 bolli kókosmjólk
Blandið öllu mjög vel saman í matvinnsluvél, með töfrasprota eða í blandara. Þegar blandan er orðin silkimjúk hellið henni þá á botninn og setjið kökuna aftur inn í frysti.
Kókosrjómi:
2 fernur af kókosmjólk (full-fat 200ml hvor ferna)
1 tsk lífræn vanilla
Smá sjávarsalt
Að þeyta kókosrjóma er eitthvað sem ég er ekki enn alveg búin að mastera. Þetta á þó að vera ofur einfalt: Setjið kókosmjólkina inn í ísskáp yfir nótt. Eftir nóttina á kókosmjólkin að vera búin að skilja sig þannig að það myndast þykkara lag efst á mjólkinni. Fleytið þessu efra lagi af með skeið og setjið í skál ásamt vanillunni og sjávarsaltinu og þeytið með handþeytara. Ef allt gengur upp þá ættu þið að fá rjóma sem lítur út eins og kúarjómi. En ef þetta tekst ekki hjá ykkur, ef kókosrjóminn vill ekki verða þykkur, þá er það allt í lagi. Þið eruð þá með kókoskrem sem er alls ekki síðra. Bragðið er alveg jafn gott þó að áferðin sé ef til vill ekki fullkomin. Passið ykkur bara að setja kökuna aftur inn í frysti í smá stund þegar þið eruð búin að setja kókoskremið á svo að það nái aðeins að stífna.
Skreytið kökuna með niðursöxuðu 70% súkkulaði (sirka 1/2-1 plata)
Njótið!
johanna@fagurgerdi.is